Miðvikudagur 23.11.2011 - 23:18 - FB ummæli ()

Næsti túristastaður?

Það er ekki mikið meira en áratugur síðan vísindamenn fundu fyrstu reikistjörnuna utan okkar sólkerfis. Nú er búið að finna mörg hundruð, og sífellt fleiri bætast við.

Til að byrja með voru reikistjörnurnar sem fundust fyrst og fremst risastórir gasrisar, þar sem líf eins og við þekkjum það getur trauðla þróast, en smátt og smátt hefur tæknin orðið fullkomnari og æ smærri plánetur hafa fundist nú allra síðustu misserin.

Nú hafa vísindamenn raðað upp öllum þeim reikistjörnum sem þeir hafa fundið, og gefið þeim „einkunn“. Sú reikistjarna fær hæsta einkunn sem þykir líkust Jörðinni. Eftir því sem reikistjörnur eru líkari Jörðinni, þeim mun líklegra ætti að vera að líf eins og við þekkjum þróist þar.

Sú reikistjarna sem „vann“ er kölluð því hljómfagra nafni Gliese 581G. Rétt er að taka fram að ekki eru allir stjarnvísindamenn sannfærðir um tilvist Gliese 581G, en sé hún til þá er hana að finna umhverfis sólina Gliese í stjörnumerkinu Voginu.

Hún er – ef hún er til – ekki nema rúmlega þrisvar sinnum þyngri en Jörðina, og hitastig gæti verið passlegt til að líf hafi þróast þar, eða muni þróast þar.

Þetta er mjög forvitnilegt. Því miður er ekki sennilegt að við komumst þangað á næstunni til að skoða okkur um, því Gliese 581G er í meira en 20 ljósára fjarlægð, sem þýðir að ljósið er 20 ár á leiðinni þangað á sínum ofsahraða – en farartæki okkar yrðu mörg þúsund ár á leiðinni.

Myndin að neðan sýnir hvernig listamaður ímyndar sér þessa forvitnilegu reikistjörnu. En hér segir BBC frá listanum yfir hinar vistvænu plánetur …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!