Mánudagur 28.11.2011 - 10:30 - FB ummæli ()

Glópar og glæpamenn

Í mörg herrans ár hef ég harmað það um hver jól að Bragi frændi minn sé ekki að senda frá sér bók. Því maðurinn hefur einstakt lag á orðum, og þekkir betur til Íslendinga en flestallir aðrir á landinu. Eins og áhorfendur Kiljunnar hafa fengið að kynnast undanfarin ár.

En nú er bókin hans Braga loksins komin út, og raunar fylgir henni DVD-diskur með ýmsum af bestu innslögum Braga í þáttunum hans Egils. Það er Hrafn bróðir minn sem tók bókina saman, en þar birtast óborganlegar greinar Braga um fólk og mannlíf á Íslandi og ekki síst í Reykjavík síðustu áratugina.

Þetta er með skemmtilegri bókum, það er mér óhætt að segja burtséð frá allri frændsemi!

Hrafn skrifar m.a. í formála:

„Með sínum stuttu en dásamlega andríku frásögnum í þáttum Egils hefur Bragi slegið í gegn, eins og sagt er, enda afar víða komið við – og það hefur rækilega komið á daginn að þótt þjóðin öll hafi fram að þessu kannski ekki þekkt Braga, þá hefur Bragi kunnað öll skil á þjóðinni.

Bragi hefur reyndar um áratugaskeið miðlað blaðalesendum af þekkingu sinni og stílsnilld. Árið 1959 varð hann kornungur blaðamaður á Vikunni og skrifaði meðal annars svokallaða Aldarspegla, sem voru einskonar nærmyndir af þekktum samtímamönnum. Síðar skrifaði hann reglulega í Vísi og fleiri blöð, en þó langmest í Morgunblaðið. Greinar Braga gegnum tíðina fjalla um allt milli himins og jarðar …

Ég hef átt þess kost að sitja við fótskör sagnameistarans í fjölskylduboðum á annarri öld og allt til þessa dags. Bragi hefur útsýni yfir mannlíf margra kynslóða, þekkir samhengið, þræðina, leyndarmálin, felumyndirnar. Og hann kann öðrum betur að segja frá – það vitum við öll …

Ég hafði úr mörgu að velja, en hér eru mannlýsingar og minningar í öndvegi. Útkoman er persónugallerí sem varla á sér hliðstæðu: Hér vappa um síður virðulegir ritstjórar og ráðherrar, listamenn og leikarar, skáld og skemmtikraftar, glópar og glæpamenn. Hér er Ísland 20. aldar.“

Bókin heitir Sómamenn og fleira fólk. Á þessari mynd má sjá Braga glaðbeittan við útkomu bókarinnar taka við hamingjuóskum frá konunum sem halda um þræði Kiljunnar ásamt Agli Helgasyni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!