Miðvikudagur 07.12.2011 - 11:59 - FB ummæli ()

Kúgun? Einelti?

Stóra Vantrúarmálið er þess eðlis að hollast er að halda sig víðs fjarri.

Málið virðist að stórum hluta snúast um einhverja undarlega þrætubók varðandi starf siðanefndar einnar við Háskóla Íslands.

En þar sem Vantrúarmenn eru af mjög svo málsmetandi mönnum sakaðir um einelti, kúgunartilburði, ritskoðun og ofstæki, þá rann mér þó blóðið til skyldunnar að kanna málið svolítið.

Því ég er vitaskuld algjörlega andvígur öllu þvíumlíku.

Upphaf þessa máls liggur í námsskeiði um nýjar trúarhreyfingar þar sem Bjarni Randver Sigurvinsson fjallaði um félagið Vantrú.

Fyrir utan að ég skil ákaflega vel gremju Vantrúar yfir því að vera spyrt saman við trúarhreyfingar (því það er þrátt fyrir allt grundvallarmunur á því að trúa og að trúa ekki), þá verð ég að segja að mér finnst heldur ekkert óeðlilegt þótt Vantrú hafi haft sínar athugasemdir við margumrædda glærusýningu Bjarna Randvers.

Athugasemdirnar koma fram hér, ef einhver nennir að lesa þetta.

Í stuttu máli er mín niðurstaða að mér finnst athugasemdir Vantrúar réttmætar og skiljanlegar. Það þýðir þó auðvitað ekki að þær séu allar 100 prósent á rökum reistar, enda er glærusýning bara beinagrind að því sem fram fer í kennslustund, en þær eru altént svo réttmætar að mér finnst ekkert óeðlilegt við að Vantrú hafi sett þær fram við siðanefnd.

Málið hefur mjög farið að snúast um orðræðu Vantrúarmanna um mótstöðumenn sína, sem stundum hefur verið af groddalegra tagi. En svo ég vitni í sjálfan mig:

Vantrúarmenn virðast hafa talað afar gáleysislega á sínum spjallvef. Sumt var áreiðanlega sett fram í einhvers konar gamni, enda ekki öðrum ætlað. Annað kann að vera til marks um yfirlæti.

En mergurinn málsins er ekki hvað Vantrúarmenn kunna að hafa kjaftað sín á milli, heldur hvað þeir GERÐU. Og þeir lögðu fram kvörtun til siðanefndar. Annað ekki, svo ég viti til.

Og: Það er svo annað mál hvernig siðanefnd tók á málinu. Ég hef hreinlega ekki haft þrek til að setja mig inn í það mál allt, enda er ég aldraður maður og hjartveikur.

En þó menn hafi mögulega aðfinnslur við starf siðanefndar, þá finnst mér það ekki réttlæta að kalla kvörtun Vantrúar einelti og kúgun og ég veit ekki hvað.

Og lýkur hér afskiptum mínum af stóra Vantrúarmálinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!