Mánudagur 19.12.2011 - 11:58 - FB ummæli ()

Valdabrölt í helvíti

Það var Gagga Lund sem vakti athygli mína á sínum tíma á tilveru Chaim Rumkowskis. Hún benti mér á frásögn um hann í einni af bókum Primo Levis, ítalska efnafræðingsins og rithöfundarins sem lifði af ársvist í Auschwitz, útrýmingarbúðum nasista fyrir Gyðinga og fleiri.

Saga Rumkowskis er ótrúleg hryllingssaga, hvernig svo sem maður túlkar hana.

Hann var tiltölulega ómerkilegur kaupsýslumaður af Gyðingaættinum í borginni Łódź í Póllandi þegar Þjóðverjar lögðu borgina undir sig í upphafi seinni heimsstyrjaldar. Þeir settu Rumkowski yfir Gyðinga-gettóið í borginni og fólu honum að halda þar uppi röð og reglu.

Það gerði Rumkowski af stökum metnaði. Í raun fór svo að hann var orðinn kóngur yfir gettóinu og ríkti með harðri hendi. Sjálfur réttlætti hann „völd“ sín með því að hann væri að reyna að gera lífið auðveldara fyrir Gyðingana í borginni, og að einhverju leyti var það kannski rétt.

En í reynd var afstaða hans samt ófyrirgefanleg. Hann hafði mikla og nána samvinnu við Þjóðverja, jafnvel löngu eftir að allir vissu að tilgangur gettósins var eingöngu að hafa Gyðingana til friðs þar til tími ynnist til að drepa þá.

Til er fræg ræða sem Rumkowski hélt yfir „þegnum“ sínum, þar sem hann krafðist þess að þeir afhentu honum börn sín, því Þjóðverjar vildu fá þau í útrýmingarbúðirnar. Þetta er einhver nöturlegasta ræða sem til er, en Rumkowski hélt því statt og stöðugt fram að Gyðingarnir yrðu að afhenda börnin – annars biðu þeirra allra sömu örlög og búið var að ákveða fyrir börnin – útrýming í gasklefunum.

Og það skuggalegasta var auðvitað að það var rétt hjá honum.

Eftir því sem nær dró stríðslokum varð lífið í gettóinu ömurlegra. Fram á síðasta dag hélt Rumkowski samt áfram að ríkja þar sem kóngur.

Á tímabili las ég heilmikið um gettóið í Łódź og Rumkowski, og hafði m.a.s. í hyggju að gera eitthvað úr þessari  sögu. Mér datt helst í hug að skrifa söngleik – það skrýtna form fannst mér að væri kannski það eina sem væri nógu absúrd til að geta túlkað fáránleikann við Rumkowski og valdabrölt hans í því helvíti sem gettóið var.

En svo gat ég bara ekki hugsað mér það. Þetta var of hræðileg saga, og pyttirnir í siðferðisefnum botnlausir.

Ég eignaðist mikla bók um lífið þarna – en gat ekki lesið hana. Strax á fyrstu opnunni var mynd af litlum strák sem að mata kornunga systur sína á einhverri grautarslettu. Svo þau gætu lifað einn dag enn í þessu viðbjóðslega ríki Rumkowskis. Ég gat aldrei flett lengra.

Nú er komin út á íslensku skáldsaga um Rumkowski og gettóið í Łódź. Hún er eftir Steve Sem-Sandberg en Ísak Harðarson þýddi hana úr sænsku.

Ég ætla að manna mig upp í að endurnýja kynnin við Rumkowski – þetta er saga um skelfilega atburði og varpar ógurlegu ljósi á mannlegt eðli. Konan mín segir að hún sé frábær.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!