Laugardagur 17.12.2011 - 00:24 - FB ummæli ()

Spurningin sem bíður

Nú hefur verið ákveðið að ræða ekki tillögu Bjarna Benediktssonar um fella niður mál gegn Geir Haarde fyrr en í janúar.

Ýmsir hafa áður bent á að í réttarhöldum yfir Geir verður til dæmis borin fram eftirfarandi spurning:

„Nú hefur verið upplýst að vorið 2008 sendi seðlabankastjóri Breta bréf til aðalbankastjóra íslenska seðlabankans, þar sem hann bauð fram tafarlausa hjálp Breta við að vinda ofan af hinu alltof stóra bankakerfi Íslendinga, sem stefndi í algjört óefni.

Íslenski seðlabankastjórinn svaraði þessu góða tilboði engu, þótt það hefði væntanlega getað orðið til þess að koma í veg fyrir hið algjöra hrun þá um haustið.

Því er spurt: Sagði íslenski seðlabankastjórinn – Davíð Oddsson – forsætisráðherra Íslands frá þessu tilboði?

Eða gerði hann það ekki?“

Ef Geir svarar játandi þá þykir mér auðvelt að rökstyðja að hann hafi gerst sekur um mikla vanrækslu. Seðlabankastjóri Breta er, hvað sem öðru líður, maður sem óhætt er að taka mark á og tilboð hans um hjálp hefði skilyrðislaust átt að þiggja.

Ef Geir svarar neitandi og Davíð hefur ekki sagt honum frá þessu bréfi, þá þykir mér jafn ljóst að íslenski seðlabankastjórinn hafi gerst sekur um mikla vanrækslu – sem jafna má við að stýrimaður á skipi í ofviðri segi skipstjóra sínum ekki frá því að framhjá hafi siglt björgunarskip og boðist til að taka dallinn í tog.

Sumir vilja líklega ekki heyra svarið við þessari spurningu.

Af bæði persónulegum og pólitískum ástæðum.

Ég vona að þeir fái ekki að ráða í janúar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!