Föstudagur 16.12.2011 - 11:15 - FB ummæli ()

Réttarfarið er ekki jólagjöf

Ég vona að ég sé ekkert átakanlega illa innrættur maður.

Og pólitískur ofstækismaður er ég ekki.

Þó er ég þeirrar skoðunar að Geir Haarde eigi að svara til saka fyrir Landsdómi og það væri beinlínis fáránlegt ef Alþingi reyndi nú að hlutast til um að draga ákæruna gegn honum til baka.

Ástæðan er ekki persónuleg eða pólitísk heift mín í garð Geirs Haarde eða Sjálfstæðisflokksins.

Ég var því eindregið fylgjandi að fleiri en Geir færu fyrir landsdóm.

Og fólk úr fleiri flokkum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson áttu öll að standa þar með honum.

Og helst hefði ég viljað fá eldri ráðherra líka fyrir dóminn – ekki síst þá Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson.

Ekki vegna þess að ég væri endilega viss um að allir þessar ráðherrar yrðu dæmdir sekir.

Sumir þeirra hefðu eflaust verið sýknaðir, kannski allir, hvað veit ég?

En meðan við erum með í lögum ákvæði um ráðherraábyrgð, hvenær á þá að nota þau lög ef ekki við algjört skipbrot þjóðarskútunnar eins og haustið 2008?

Það hljómar eins og afar þunnur brandari að vera með slík lög, en telja ekki ástæðu til að láta á þau reyna í tilfelli sem þessu.

Það hefði því átt að senda fleiri ráðherra en færri fyrir landsdóm til upplýsa um aðdraganda hrunsins í eitt skipti fyrir öll, og komast að því hvort eitthvað við aðgerðir eða aðgerðaleysi ráðherranna væri beinlínis refsivert samkvæmt lögum.

Ég er vissulega veikur fyrir röksemdum um að úr því Alþingi heyktist á að draga aðra ráðherra en Geir Haarde fyrir dóm, þá sé kannski ekki ýkja sanngjarnt að hann standi þar einn.

En mér finnst samt – einkum úr því sem komið er – skárra að sú verði niðurstaðan en að ákæran verði dregin til baka af einhvers konar vorkunnsemi með Geir Haarde, sem okkur þykir öllum þrátt fyrir allt svolítið vænt um.

Og er það – þegar öllu er á botninn hvolft – svo óeðlilegt að hann svari einn fyrir gjörðir ríkisstjórnar sinnar?

Þegar skip strandar fer skipstjórinn oftar en ekki fyrir sjórétt, og það þykir ekki tiltökumál. Málið er bara rannsakað, og svo kemur niðurstaða.

Það eru engar undirskriftasafnanir um hve óréttlátt sé að skipstjórinn einn standi fyrir máli sínu, en ekki vélstjórinn eða bátsmaðurinn.

Og ég verð að segja að framgangsmáti þeirra, sem nú ætla með þingsályktunartillögu rétt fyrir jólaleyfi að draga ákæruna gegn Geir til baka, þykir mér afar ógeðfelldur.

Þetta virðist eiga að vera einhvers konar jólagjöf handa Geir – sem hefði þó áreiðanlega á sínum langa þingferli aldrei tekið önnur eins vinnubrögð í mál.

Eða aðra eins fljótaskrift.

Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, sem snertir einhverja mestu atburði Íslandssögunnar á seinni tímum, sem snertir líka afar djúpskreiðar spurningar um ábyrgð ráðamanna á gjörðum sínum, og hér er um að ræða mál sem snertir innsta eðli samskipta hinna ólíku greina ríkisvaldsins.

En Bjarni Benediktsson og félagar ætlast til að það verði afgreitt á einum degi sem jólagjöf handa Geir, bara af því hann er svo vænn maður.

En málið snertir réttarfar og réttlæti í landinu og það má ekki vera jólagjöf handa einum manni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!