Sunnudagur 15.01.2012 - 11:02 - FB ummæli ()

Leitað að frávísun

Geir Haarde og Baldur Guðlaugsson voru báðir félagar í Eimreiðarhópnum svokallaða sem myndaður var til að hreinsa áru Sjálfstæðisflokksins og innleiða alvörufrjálshyggju í röðum hans eftir áratugamengun frá krötum.

Og í leiðinni ætlaði hópurinn að ná völdum í flokknum.

Hvorttveggja tókst með miklum bravúr, og þarf ekki að orðlengja það.

(Af hverju engin kona var í Eimreiðarhópnum er spurning sem ég treysti mér ekki til að svara. Þetta voru 15 strákar og þar sem þetta var í upphafi áttunda áratugarins hefði mátt búast við að ein og ein kona dúkkaði upp í svo stórum hóp. En svo var sem sagt ekki.)

Í alllangan tíma báðumegin við aldamótin 2000 réðu Eimreiðarmenn nánast því sem þeir vildu ráða í samfélaginu og fóru um með heilmiklum slætti. Þeir voru karlmenni og höfðu rétt fyrir sér.

Að því er best varð séð.

Nú eru tveir úr þessum hópi fyrir dómi, vissulega fyrir næsta ólíkar sakir.

Baldur Guðlaugsson er sakaður um að hafa nýtt sér upplýsingar úr stjórnkerfinu um yfirvofandi hrun til að koma eignum sínum í skjól.

Geir Haarde er sakaður um vanrækslu sem æðsti valdamaður landsins síðustu mánuðina fyrir hrunina.

Ekki ætla ég að fullyrða neitt um sekt eða sakleysi; það er sem betur fer annarra að ákveða það.

En það er athyglisvert að í báðum tilfellum er lögð firnamikil áhersla á að vísa málunum frá með einhverjum ráðum.

Lögmaður Geirs Haarde hefur ítrekað farið fram á frávísun, og þegar það dugði ekki nema til hálfs, þá fór Bjarni Benediktsson af stað með þingsályktunartillögu sína.

Ég hef haft ríka tilhneigingu til að hafa samúð með Geir Haarde, vegna þess að ég tel að ákæra hefði átt fleiri en hann einan. En hann var þrátt fyrir allt kafteinninn á þjóðarskútunni, og ef hann fer ekki að takast á við ákæruatriðin öðruvísi en reyna að fá þeim vísað frá, þá kortast kannski eitthvað sú samúð.

En svipað er upp á teningnum með Baldur Guðlaugsson.

Hann hefur mikið reynt að fá málinu gegn sér vísað frá.

Nú hefur verið skrifuð heil bók sem virðist eiga að sýna fram á að Baldur hafi rétt fyrir sér.

Ekki að hann sé saklaus af ákæruatriðunum, heldur að vísa skuli málinu frá.

Því Baldur sé fórnarlamb hins argasta óréttlætis.

Sjá hér.

Nú er ég ekki lögfræðingur, sem betur fer.

En ég þykist samt sjá í hendi mér að forseti lagadeildar Háskóla Íslands hljóti að vera á hálum ís þegar hann heldur því fram að réttarregla, sem kveður á um að ekki verði ákært og dæmt tvisvar í sama málinu, gildi um Baldur Guðlaugsson.

Baldur var tvisvar tekinn til rannsóknar. Það er allt annar handleggur. Ef ekki má tvisvar rannsaka mál, þá er satt að segja undarlega komið fyrir réttarfarinu.

Þá gætu óprúttin stjórnvöld til dæmis stundað það að hefja málamyndarannsókn á óheiðarlegum stuðningsmönnum sínum, látið svo fella rannsóknina fljótlega niður og þar með væru stuðningsmennirnir lausir allra mála að eilífu!

Það segir sig bara sjálft að slíkt gengur ekki.

Og skrýtið að Róbert Spanó skuli komast að þessari niðurstöðu.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!