Föstudagur 13.01.2012 - 11:04 - FB ummæli ()

Vonirnar sem ekki rættust

Þær miklu vonir sem margir – og þar á meðal ég – bundu við Barack Obama í embætti Bandaríkjaforseta hafa ekki ræst ennþá.

Vissulega er stjórn Obama mun skapfelldari en stjórn Bush var, en þó hefur alls ekki nógu margt breyst til að hægt sé að tala um að vonir hafi ræst.

Hann hefur til dæmis ekki lokað fangelsinu í Gvantanamó á Kúbu þar sem föngum er haldið án dóms og laga.

Því hafði Obama þó lofað hátíðlega fyrir kosningarnar 2008, ef ég man rétt.

Amnesty International hefur nú hafið undirskriftasöfnun um veröld víða, til að hvetja Obama til að loka þessu fangelsi sem brýtur í bága við öll þau mannréttindasjónarmið sem Vesturlönd þykjast þess umkomin að veifa framan í fólk í öðrum heimshlutum.

Undirskriftasöfnunina er að finna hér.

Ég hvet alla til að skrifa undir. Sama hvar menn telja sig standa í pólitík. Mannréttindi eru ekki flokkspólitísk.

Íslenski textinn sem fylgir er svohljóðandi:

„Fyrstu einstaklingarnir voru fluttir í varðhald í Gvantanamó þann 11. janúar 2002. Síðan þá hefur varðhaldsmiðstöð Bandaríkjamanna þar verið í deiglunni vegna mannréttindabrota á föngum.

Enn er 171 einstaklingur í haldi í Gvantanamó. Flestir þeirra hafa aldrei verið ákærðir fyrir glæp og vita ekki hvort nokkurn tíma verður réttað yfir þeim. Þeir, sem ákærðir hafa verið, munu sæta óréttlátum réttarhöldum hjá hernefnd. Jafnvel verður hægt að færa þá, sem hernefndin telur saklausa, aftur í ótímabundna varðhaldsvist.

Þetta brýtur gegn alþjóðlegum mannréttindalögum. Þessu verður að ljúka núna.

Skrifaðu undir og hvettu Barack Obama, Bandaríkjaforseta, til að binda enda  á ótímabundna varðhaldsvist í herstöð Bandaríkjamanna í Gvantanamó á Kúbu.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!