Laugardagur 28.01.2012 - 08:19 - FB ummæli ()

Er verið að gera gys að okkur?

Það læðist að manni illur grunur.

Hæstiréttur sýknar fólk af ákæru um innflutning á eiturlyfjum.

Meðal annars og kannski ekki síst vegna þess að meðal þeirra gagna sem lögð voru fram í málinu var upptaka af trúnaðarsamtali eins hinna grunuðu við lögfræðinginn sinn!

Lögreglan hafði ekki séð neitt athugavert við að nota upptökuna gegn sakborningnum, né dómarar í héraðsdómi.

Hvernig gat það gerst?

Fattaði enginn neitt?

Ég hefði haldið að hvert einasta barn vissi að sakborningar hafa heilagan rétt til að ráðgast við lögfræðinginn sinn án þess að eiga á hættu að samtalið sé hlerað.

En þarna virðist lögreglan hafa talið það eðlilegt, saksóknari sömuleiðis – og enginn í héraðsdómi gerði athugasemdir!

Þá hefur Hæstiréttur vísað öðru sinni heim í hérað máli gegn bankamanni sem sakaður er um stórfellt misferli rétt fyrir hrun Landsbankans.

Ég tek það fram að ég veit lítið um málavöxtu þar, eða líkur á sekt eða sakleysi – ég er bara að hugsa um framgangsmátann.

Hæstiréttur hafði áður vísað málinu frá sér þegar það kom fyrst úr héraðsdómi, og reglan mun vera sú að þegar það gerist, þá dugar ekki einn héraðsdómari í næstu umferð málsins, heldur verður að skipa þrjá til að fara með málið.

En héraðsdómi LÁÐIST að gera það!

Enginn í héraðsdómi virðist hafa kunnað þá reglu.

Æ, hún gleymdist, sú grundvallarregla!

Þó tók málareksturinn marga mánuði, og það hefði átt að vera nægur tími til að einhvern rámaði í svo einfalda reglu!

Enginn í herbúðum saksóknara virðist hafa munað neitt heldur.

Fattaði enginn neitt?

Já, það læðist að manni illur grunur.

Er réttarkerfið á Íslandi einfaldlega svona ótrúlega slappt?

Eða er verið að gera gys að okkur?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!