Þriðjudagur 14.02.2012 - 11:19 - FB ummæli ()

Bösl í hnasli, sýsl í rusli og þeyþey

Þetta hér er eiginlega alveg óleyfilega fyndið.

Össur Skarphéðinsson svaraði einhverri fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur og vitnaði óbeint í Íslandsklukkuna (og Íslandssöguna) þegar hann kvað fyrirspurnina ekki heyra undir sitt ráðuneyti:

„Hér er því rangur hattur settur á ráðuneytið, líkt og þegar Jón Hreggviðsson setti upp hatt böðulsins í Galtarholti forðum.“

Það finnst Siv Friðleifsdóttur svívirða hins mesta:

„Svarið er með nokkrum ólíkindum að mínu mati. Ég sé fingraför hæstvirts utanríkisráðherra á þessu svari að því að þar er svo furðulegt orðalag að ég trúi því ekki að nokkur embættismaður hafi sett þetta á blað. Þetta hlýtur að koma frá hæstvirtum ráðherra sjálfum og ég hef nokkrar áhyggjur af þessu ef þetta er þróunin.“

Siv virðist altso ekki hafa borið kennsl á tilvitnunina – látum það nú vera. Það væri að vísu skemmtilegra að á Alþingi sæti fólk sem hefði að minnsta kosti lágmarksþekkingu á íslenskri menningu og sögu, en ekki verður á allt kosið.

Hins vegar hélt Siv áfram:

„Þetta er í annað sinn sem hæstivirtur ráðherra kemur með svona sérstakt svar til sama þingmannsins. Mér finnst þetta að vissu leyti niðurlægjandi og gera grín að háttvirtum þingmanni. Mér finnst þetta ekki við hæfi og ég tel að forsætisnefnd eigi að skoða þetta.“

Í fyrsta lagi er fyndið að Siv virðist mjög hneyksluð á að Össur kunni að hafa skrifað sjálfur svarið við fyrirspurninni sem Vigdís beindi þó til hans, en ekki einhverra embættismanna.

Eru fyrirspurnir til ráðherra á Alþingi þá svo mikill sýndarveruleiki að það er beinlínis ætlast til að ráðherrar skrifi EKKI sín eigin svör?

Og í öðru lagi, síðan hvenær er það sérstakt hneykslunarefni að vitna til Halldórs Laxness í máli sínu?

Er þá ekki ansi undarlega komið?

Það hvarflar að mér að stinga eftirfarandi ráðleggingum að Siv:

„Á morgun ó og aska, hí og hæ

og ha og uss og pú og kannski og seisei

og korríró og amen, bí og bæ

og bösl í hnasli, sýsl í rusli og þeyþey.“

En nú vona ég bara að Siv kæri mig ekki til lögreglunnar!

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!