Þriðjudagur 28.02.2012 - 09:39 - FB ummæli ()

Þrjúbíó á Bessastöðum

Ég verð að viðurkenna að ég skammast mín svolítið fyrir hönd þeirra félaga minna í stétt fjölmiðlamanna sem fóru að fylgjast með blaðamannafundinum á Bessastöðum í gærdag.

Því þeir áttu auðvitað allir sem einn að hafa þrek til að draga þessa uppákomu sundur og saman í háði.

Vitanlega eiga fjölmiðlamenn ekki að opinbera persónulegar skoðanir sínar á því hvort einn maður frekar en annar sitji í tilteknum embættum.

En þeir hafa fulla heimild og ber raunar skylda til að benda hispurslaust á það ef einhverjir spunakóngar eru að setja upp leikrit opinberlega í eiginhagsmunaskyni.

Reyndar er orðið „leikrit“ í þessu sambandi sennilega móðgun við heiðarlega leikritahöfunda.

Þrjúbíó væri nær lagi.

Söguþráðurinn var álíka sannfærandi og í gamalli Zorró-mynd sem ég sá fyrir margt löngu í Stjörnubíói, og var klippt saman úr tveimur eldri myndum.

Um áramótin hélt Ólafur Ragnar Grímsson ávarp í sjónvarpinu þar sem hann kvaðst hlakka til að láta af störfum.

Ekki hvarflaði að neinum að skilja þetta ávarp öðruvísi en svo að hann ætlaði ekki að vera í framboði við forsetakosningar í sumar.

Nema hvað allt í einu spratt fram einn maður.

Og benti á að ef mjög vel væri rýnt í ávarp Ólafs Ragnars, þá stæði þar raunar hvergi alveg fullkomlega afdráttarlaust að hann ætlaði að hætta.

Með góðum vilja væri hægt að skilja það svo að ef til vill hugsanlega kannski væri Ólafur fáanlegur til að vera áfram!

Af tilviljun var þessi skarpi textarýnir gamall kammerat Ólafs Ragnars úr stjórnmálafræðinni í háskólanum.

Nú veit ég að Ólafur Þ. Harðarson er vammlaus fræðimaður.

Það er líka eins gott, því ef ekki, þá færi jafnvel svo græskulaus maður sem ég að finna kvikna í brjósti mér grunsemdir um að Ólafur Ragnar hefði kannski laumað því að nafna sínum að vel mætti nú benda á það opinberlega að þessi möguleiki væri fyrir hendi …

Svona til að koma þeirri hugmynd á koppinn.

En slíkar samsæriskenningar þarf náttúrlega ekki til – það dugir að Ólafur Þ. þekkir auðvitað vel til forsetans, bæði þankagangs hans og kænskapar.

Því var náttúrlega í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að hann kæmi einn manna auga á að Ólafur Ragnar hefði þrátt fyrir allt skilið eldhúsdyrnar eftir opnar þegar hann virtist í ávarpinu sínu kveðja Bessastaði.

Og gegnum þessar eldhúsdyr gæti hann smogið inn aftur, ef hann fengi færi á.

Með öðrum orðum – ef hann yrði beðinn fallega!

Flesta rak í rogastans þegar Ólafur Þ. Harðarson varpaði fram þessum möguleika.

Nei fjandakornið, hafði ekki Ólafur Ragnar sagt það alveg skýrt að hann væri hættur?

Jæja – sögðu fréttastjórar við sína menn – hringið þá bara í hann og spyrjið hann.

„Fór það nokkuð milli mála að þú lýstir því yfir að þú værir hættur, herra Ólafur? Er þetta ekki einhver óþarfa fabúlasjón í nafna þínum Harðarsyni?“

En þá brá svo við að Ólafur Ragnar gufaði upp.

Maðurinn sem fjölmiðlar hafa alltaf átt mjög greiðan aðgang að.

Og maðurinn sem gegndi stöðu þjóðhöfðingja íslenska ríkisins, og maður skyldi því ætla að bæri skylda til að upplýsa þjóðina um fyrirætlanir sínar í mikilvægum málum.

Og maðurinn sem var svo illa brenndur af húrrahrópum sínum og orðuveitingum handa útrásarvíkingum að hann hafði lofað að taka upp betri og opnari stjórnarhætti.

Hann var allt í einu gufaður upp!

Hvergi sjáanlegur, þessi fjölmiðlaglaði maður.

Jú reyndar, það fréttist af honum á Suðurskautinu þar sem hann var í útilegu með nokkrum auðkýfingum.

Kannski að ná í ísmola til að kæla kampavínið á Bessastöðum?

Nei auðvitað, að bjarga heiminum!

Hvernig læt ég!

En ekki gat hann sem sagt svarað einföldum spurningum fréttamanna um hvort hann væri ekki örugglega hættur.

Í margar vikur mátti þjóðin velkjast í vafa – og spekúlera í „hvað forsetinn ætlar að gera“?

Guð hvað sumir hafa mikla nautn af því að nánast neyða fólk til að hugsa um sig!

Svo fór af stað undirskriftasöfnun.

Gamli sótraftar voru á sjó dregnir og tr0mmuðu upp til að segja þjóðinni að hennar eina haldreipi í lífinu væri Ólafur Ragnar Grímsson.

Og það skipti höfðuðmáli fyrir sálarheill okkar allra að hann næði því að vera forseti í tuttugu ár.

Undirskriftasöfnunin fór vel af stað en rann svo út í sandinn.

Það náðust ekki nema þrír fjórðu af þeim undirskriftum sem að var stefnt.

Ekki gaf það til kynna neina djúpa sannfæringu fyrir því að þjóðin í heild liti á Ólaf Ragnar Grímsson sem bjargvætt sinn.

Þarna hefði Ólafi Ragnari verið sæmst að blása þetta allt saman af.

Koma fram úr hýði sínu og lýsa því yfir að auðvitað hefði ekki hvarflað að honum annað en að hætta – þetta hefði verið hrein oftúlkun í Ólafi Þ. Harðarsyni og tóm óskhyggja í oftrúuðum stuðningsmönnum hans.

En nei – hann hélt áfram að láta ekki ná í sig.

Loks var undirskriftaherferðinni hætt þegar rétt rúmlega 30.000 nöfn voru komin á hana.

Enginn fékk að vísu að sjá þau nöfn. Ég fæ til dæmis ekki að vita hvort einhver brellumeistari hafi skrifað nafn mitt á listann og ég sé því í orði kveðnu í hópi þeirra sem skora á Ólaf Ragnar Grímsson að halda áfram.

Og í gær voru þessar undirskriftir afhentar á Bessastöðum og fjölmiðlamenn flykktust að til að fylgjast með – og sitja síðan blaðamannafund með forsetanum.

Jæja, þá átti þessu furðuspili loksins að ljúka.

Guðni Ágústsson flutti ávarp fyrir hönd þeirra sem vildu fá Ólaf Ragnar í framboð að nýju.

Það væri eina von Íslands.

„Guð minn góður, af hverju sleikir hann ekki bara jörðina fyrir framan Ólaf Ragnar?“ spurði ungur maður í mín eyru eftir að hafa heyrt ávarp hins fyrrum stolta bóndasonar.

Og já, það var erfitt að hlusta á þetta.

Ég fór því bara að keyra út klósettpappír fyrir son minn ungan svo hann komist á fótboltamót sumarsins.

Þegar ég væri búinn að því hlyti þessum langdregna skrípaleik að vera lokið.

En nei!

Þrjúbíóið er þá rétt að ná hámarki sínu.

Næst flytur Ólafur Ragnar ræðu þar sem hann er bljúgur og auðmjúkur, næstum sleginn.

Því hann er svo hissa.

Hann er satt að segja aldeilis standandi hlessa!

Hann sem hafði allan tímann ætlað að draga sig í hlé sem forseti Íslands og fara að sinna alþjóðamálum.

(Engin smáræðis verkefni sem hann er sýnkt og heilagt beðinn um þar!)

Þá birtist Guðni Ágústsson bara alveg óforvarandis með allar þessar undirskriftir!

Jahérna hér!

Það hafði bókstaflega ekki hvarflað að honum að halda áfram! Hafði hann ekki talað skýrt í nýársávarpi sínu?!

Hann vildi alls ekki halda áfram!

(Hvers vegna hafði hann þá ekki virt fjölmiðla viðlits þegar þeir reyndu að þýfga hann um þetta strax eftir áramótin?)

Þessi þrábeiðni þjóðarinnar um að hann héldi áfram, hún hafði eiginlega valdið honum mestu sálarkvölum.

Fyrir nú utan hvað hún hafði gert öðrum hugsanlegum frambjóðendum erfitt fyrir!

(Hann átti auðvitað engan þátt í því með þögn í átta vikur, neinei, hann var held ég ekki einu sinni spurður að því!)

En altént, eftir þessa áskorun frá þjóðinni, þá varð hann auðvitað að íhuga málið upp á nýtt.

Hann bara varð að gera það fyrir aumingja hrjáða þjóð sína!

(Hann nefndi líklega aldrei að þetta var ekki áskorun frá þjóðinni, heldur frá um það bil 12 prósentum hennar, og kannski Mikka mús.)

Og svo undrandi var hann, og svo djúpt snortinn, að hann varð eiginlega að fá smá umhugsunarfrest.

Hvað er langt síðan þessi undirskriftasöfnun fór af stað? Sex vikur, já? En samt hafði það ekki dugað til að hann myndaði sér skoðun á því hvað hann myndi gera þegar Guðni birtist á Bessastöðum með listann undir hendinni.

Nei, hann gat ekki svarað alveg strax.

Hann þurfti smáfrest til að fara aftur í gegnum hugleiðingar sínar!

Og vita hvort hann treysti sér til að vinna frítt fyrir þjóðina næstu fjögur árin.

(Það er að segja með tæpar tvær milljónir á mánuði.)

Komiði aftur eftir viku, sagði hann svo við blaðamennina á Bessastöðum.

(Þaulvanur því að hann geti alltaf með léttum leik valtað yfir alla fjölmiðlamenn. Þeir höfðu meira að segja sjálfir, og sér til heilmikillar vansæmdar, tekið þátt í að hlæja að Jóhanni Haukssyni sem hafði gert tilraun til að spyrja Ólaf Ragnar gagnrýnna spurninga á einhverjum Icesave-fundinum. Og muniði ekki hvernig hann tók Jeremy Paxman?!)

Nei, þetta var hörmung.

Fjölmiðlamenn eiga ekki að láta bjóða sér svona þrjúbíó.

Þeir geta haft hvaða skoðun sem þeir vilja á Ólafi Ragnari Grímssyni og embættisfærslum hans.

En þegar þeir horfa upp á annan eins spuna og þann að eftir sex vikna undirskriftasöfnun og átta vikna vandlega þögn þá standi forsetinn næstum með tárin í augunum fyrir framan þá, svo djúpt snortinn yfir þrábeiðni þjóðarinnar, og bara verði að fá að hugsa málið stundarkorn, því þetta kom honum svo gjörsamlega á óvart – þá eiga þeir að leggja frá sér poppið og yfirgefa þetta þrjúbíó.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!