Fimmtudagur 01.03.2012 - 12:09 - FB ummæli ()

Gerum þetta vel

Geir Haarde fer nú fyrir landsdóm. Ég held að það hafi verið eina rétta niðurstaðan. Vissulega hefði ég fremur kosið að hann stæði ekki einn fyrir dómnum, en held samt að þetta verði til góðs.

Í fyrsta lagi sýnir þessi niðurstaða að okkur er alvara með að rannsaka hvað gerðist í hruninu.

Úr því sjálfur forsætisráðherra landsins þarf að svara því fyrir dómi hvort hann hafi gerst sekur um að brjóta lög um ráðherraábyrgð með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi, þá eiga minni spámenn ekki að vera öruggir heldur!

Þessari niðurstöðu þarf að fylgja eftir með raunverulegum rannsóknum á lífeyrissjóðum, einkavæðingum bankanna bæði fyrr og síðar, Icesavemálinu, Fjármálaeftirlitinu, Seðlabankanum og mörgu öðru.

Hvort sem Geir Haarde reynist á endanum sekur um brot á lögum, þá er auðvitað deginum ljósara að hann bar ekki einn ábyrgð á hruninu, og því er mjög mikilvægt að upplýsa nú alla þætti hrunsins og aðdraganda þess – svo þetta líti ekki út eins og Geir Haarde eigi einn að vera sektarlamb þjóðarinnar.

Í öðru lagi – ég skil ósköp vel að Geir Haarde sjálfur hafi engan húmor fyrir því sjónarmiði í bili, og ég vona sannarlega að það hljómi ekki yfirlætislega, en ég er viss um að þetta verður honum sjálfum til góðs þegar frá líður.

Nú fer hann fyrir dóminn og mun þar tala máli sínu á vafalítið afar skeleggan hátt og við eigum eftir að verða margs vísari – þar á meðal um ýmislegt sem að öðrum kosti hefði verið reynt leynt eða ljóst að þagga niður.

Hvort sem Geir reynist svo á endanum hafa gerst að einhverju leyti brotlegur við lög um ráðherraábyrgð eða ekki, þá þykist ég vita að hann verður að lyktum maður að meiri heldur en ef Alþingi hefði afturkallað ákæruna. Af því hefði verið svo rammur flokkspólitískur fnykur að ég hugsa að það hefði verið lítið gaman til lengdar fyrir Geir að þiggja þá afturköllun.

Og fyrir samfélagið hefði slíkur fnykur orðið nær óbærilegur.

Reynum nú að gera þetta vel, og þá verður þetta okkur öllum til góðs.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!