Miðvikudagur 21.03.2012 - 19:50 - FB ummæli ()

Líttu til framtíðar, Bjarni

Heyrði ég rétt?

Var einhver þingmaður í pontu á Alþingi að tala um nauðsyn þess að rannsaka hrunið og sér í lagi hina stórfurðulegu fjárveitingu Seðlabankans til Kaupþings bókstaflega kortéri fyrir hrun?

Fjárveitingu sem virkar nánast glæpsamleg ef það er rétt sem menn héldu fram fyrir landsdómi að þá hafi löngu verið orðið ljóst að enginn bankanna gæti lifað, ekki einu sinni Kaukþing?

Og þegar þessi þingmaður var að tala um þessa sjálfsögðu rannsókn – sem raunar ætti að vera löngu hafin – stóð þá Bjarni Benediktsson virkilega upp og sagði:

„Jæja þá, huh, en við skulum þá sko bara líka rannsaka Icesave-samningana …?“

En aðallega ættum við að leggja fortíðarhyggju á hilluna, horfa fram á veginn blablabla …

Heyrði ég þetta virkilega rétt?

Jahérna þá.

Nú er ég vissulega þeirrar skoðunar að það megi rannsaka allt í sambandi við Icesave alveg oní ræmur.

Fínt, gerum það!

En að tefla rannsókn á Icesave-samningunum fram sem einhvers konar HÓTUN – ef menn ætla að láta verða af því að rannsaka framferði Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde á lokametrunum fyrir hrun – það er einkennilegt, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið.

Bjarni er sífellt að tala um að við eigum ekki að horfa alltaf til baka.

En sjálfur er hann límdur við baksýnisspegilinn – þar sem Davíð blasir við.

Gott væri ef Bjarni sjálfur liti fram á veginn, og hætti að láta mestu skipta hvernig mál horfa við Davíð og öðrum gömlum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins.

Líttu til framtíðar, Bjarni.

Partur af því er að gera upp við fortíðina, ekki bæla hana niður!

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!