Þriðjudagur 27.03.2012 - 23:53 - FB ummæli ()

Það allra allra lágkúrulegasta

Ég er ekki í stakk búinn til þess ennþá að lýsa fastmótaðri skoðun á kvótafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Ég er hreinlega ekki búinn að kynna mér það nógu vel.

En sum viðbrögð við því eru svo heiftúðug að mann setur hljóðan.

Af einhverjum ástæðum virðast þau allra ýktustu (að minnsta kosti þau sem ég hef séð) koma frá Vestmannaeyjum.

Elliði Vignisson: „Í framkomnu frumvarpi kristallast höfuðborgarhroki núverandi stjórnvalda. Þau líta á landsbyggðina sem nýlendu sem í lagi er að skattleggja þannig að allur sá arður sem þar verður til með svita og atorku íbúa, nýtist í hýtina í Reykjavík.“

Geir Jón Þórisson: „Þetta eru skelfilegustu hamfarir sem yfir okkur hefur dunið er þó af nægu að taka. Nú þarf að standa saman svo hægt verði að hrinda þessari ofbeldisárás á landsbyggðina út í hafsauga.“

En allra allra ýktustu viðbrögðin eru þó hér.

Þar er áhrifum kvótafrumvarpsins líkt við það sem gerðist í bókinni Öreigarnir í Lodz.

Öreigarnir í Lodz er frábær bók sem lýsir hryllilegri sögu þegar morðhundar þýskra nasista lokuðu Gyðinga inni í gettói, svívirtu þá og þrælkuðu og þeir sem ekki féllu vegna ofbeldis eða hungurs voru fluttir í útrýmingarbúðir.

Og murkað úr þeim lífið samviskulaust.

Bókin á að heita að vera skáldsaga, en er þó dagsönn – því miður.

Einhver skelfilegasta ræða sögunnar er ræða sem svokallaður „öldungur“ gettósins hélt þegar hann sagði íbúum að þeir yrðu að afhenda Þjóðverjum börn sín.

Og allir vissu að Þjóðverjar ætluðu að myrða börnin.

Hérna má lesa þessa hræðilegu ræðu – og líka það sem hin dauðadæmdu börn sögðu um líf sitt í þessum viðbjóði öllum.

Að það hvarfli einu sinni að Bergi Kristinssyni að líkja þessu sannkallaða víti við hugsanleg áhrif kvótafrumvarpsins á Vestmanneyjar, það lýsir svo brjálæðislegu hugarfari að mér verður eiginlega illt.

Þetta er ekkert annað en ógeðsleg svívirðing við hræðileg örlög þeirra þúsunda karla, kvenna og barna sem báru beinin í því helvíti á jörð sem gettóið í Lodz var.

Ógeðsleg svívirðing.

Já, hafðu það Bergur Kristinsson.

Þetta er eiginlega það allra allra lágkúrulegasta sem ég hef séð í svokallaðri „umræðu“ á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!