Þriðjudagur 01.05.2012 - 16:36 - FB ummæli ()

Fyrir 90 árum – eða núna

Í tilefni dagsins setti ég á Facebook-síðuna mína fyrr í dag úrklippu úr Morgunblaðinu frá 3. maí 1923.

Tveim dögum fyrr hafði í fyrsta sinn verið haldin 1. maí-kröfuganga í Reykjavík, en Mogginn sá ekki ástæðu til að greina frá tíðindunum fyrr.

Ekkert var minnst á kröfur þær sem verkalýðshreyfingin hafði sett fram í þessari fyrstu göngu sinni, en þar var ekki síst um að ræða kröfu um átta stunda vinnudag.

Heldur beindi blaðið athyglinni að öðru.

Blaðið kvaðst hafa eftir fólki sem hafði séð gönguna að hún hefði verið mjög fámenn og að „[b]örnin hafi verið fjölmennust, nokkuð hafi verið af kvenfólki, en svo fátt af fullorðnum verkfærum mönnum, að það vakti almenna eftirtekt“.

Og svo var náttúrlega reynt að kenna vondum áhrifum frá útlöndum um þetta skaðvænlega fyrirbæri sem málgagn atvinnurekenda og kaupmanna taldi aukna uppivöðslusemi verkalýðsins vera:

„Þessar svo nefndu kröfugöngur eru upp runnar í miljónaborgunum erlendis, og geta haft þar mikil áhrif í þá átt, að vekja eftirtekt og umtal manna á milli. Hjer er nú verið að apa eftir þessu, án þess að nokkur skilyrði sjeu til að það hafi lík áhrif hér og þar. Hjer er þetta ekki annað en meinlaus og gagnslaus skopleikur, og þátttökuleysi verkamannanna almennt sýnir, að þeir skilja þetta rjett.“

Hér er margt sem gæti verið skrifað á vorum dögum – að breyttu breytanda.

„Þessar svo nefndu kröfugöngur …“ minna auðvitað á hið „svonefnda hrun„.

Þá er gert lítið út mótstöðumönnunum – þetta voru ekki annað en krakkaskammir og kellíngar!!

Það „vakti almenna eftirtekt“ – það er giska svipað orðalag og „það sér það hver maður“ sem stundum hefur verið notað hin seinni ár.

Eigin skoðun þess sem talar gerð að almæltum tíðindum.

Og svo gefið til kynna að það sé bara verið að apa eftir útlendingum.

Og minnt á að aðstæður – skilyrði – séu vitanlega allt aðrar hér á Íslandi en annars staðar!

Og síðan aukið svolítið í háðið og spottið um andstæðinginn og það verður kvikindislegra: „… meinlaus og gagnslaus skopleikur.“

Svo loks punkturinn yfir i-ið – greinarhöfundurinn veit hvað er „rjett“ og er þess umkominn að útdeila lofi eða lasti eftir því hvort aðrir ramba líka á að „skilja þetta rjett“.

Þeir sem halda að verkalýðsstéttin íslenska hafi fyrirhafnarlaust sótt kjör og réttindi í vinalegan faðm atvinnurekenda, þeir ættu að kynna sér svolítið söguna.

„Stétt með stétt“ slagorð Sjálfstæðisflokksins var fundið upp skömmu eftir þetta til að reyna að bæla niður stéttarvitund verkamanna og gera þá auðsveipari.

Sannfæra þá um að allir hefðu einn málstað.

Ættu að leggjast saman á árarnar, ekki vera með kröfur og heimtufrekju.

Forstjórinn vill ykkur vel, kjánarnir ykkar – ekki níða af honum skóinn!

Einmitt um þetta leyti á þriðja áratugnum þurftu sjómenn að heyja mjög harða baráttu gegn útgerðarmönnum til að knýja vökulögin í gegn.

Lög sem áttu að tryggja þeim algjöran lágmarkshvíldartíma.

Útgerðarmenn börðust gegn þeim eins og grenjandi ljón – vældu og emjuðu um að fyrirtæki þeirra myndu ekki þola þá gerbyltingu, þau myndu fara unnvörpum á hausinn, atvinna sjómanna og fiskverkafólks væri í stórkostlegri hættu …

Æ hvað þetta er allt gamalkunnugt!

Ólafur heitinn Thors var þá í fararbroddi útgerðarmanna gegn sjómönnum og reif hár sitt og skegg á við hvurn sem var.

Hann var hins vegar nógu mikill maður til að iðrast seinna afstöðu sinnar.

Skyldu einhverjir af sægreifum nútímans eða stríðsherrum pólitísku deildarinnar eiga eftir að iðrast baráttu sinnar gegn sanngjörnum kröfum um réttlátara fiskveiðikerfi?

– – –

Í lokin – það var svo auðvitað tóm lygi í Mogganum að kröfugangan 1. maí 1923 hefði verið vandræðalega fámenn.

Hér er mynd af henni.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!