Fimmtudagur 03.05.2012 - 15:26 - FB ummæli ()

Sextugur unglingur

Þetta er afmæliskveðja.

Jóhann Páll Valdimarsson bókaútgefandi er sextugur í dag.

Sú staðreynd sýnir að tíminn líður, því ekki virðist neitt sérlega langt síðan hann kom eins og stormsveipur inn í íslenska bókaútgáfu, kornungur og fullur af eldmóði – enda beinlínis alinn upp í bransanum.

Innan við þrítugt var hann farinn að gera sig verulega gildandi. Strax einkenndi hann ódrepandi áhugi bæði á markaðshlið útgáfunnar, en líka og þó blessunarlega ennþá fremur á menningarlegu gildi hennar.

Sá áhugi hefur haldist óbreyttur, ekki síður en ungæðisskapurinn.

Framan af gekk á ýmsu hjá honum, það komu góðir dagar, það komu verri dagar, en nú síðustu árin hefur fyrirtæki hans komið vel undir sig fótunum.

Það sinnir mörgum af helstu rithöfundum okkar af mikilli kostgæfni, og gefur út allskonar stórvirki sem ekki væru á færi fyrirtækja sem hefðu minni umsvif – eða minni metnað.

Persónulega getur Jóhann Páll verið manna skemmtilegastur.

Vissulega er hann langt frá því að vera heilagur maður, eins og hann á þó til að fullyrða sjálfur, en hver er það svosem?

Og hann á til afskaplega væna og mannlega hlið.

Og á þessum tímamótum má óhikað fullyrða að fyrir utan listamennina sjálfa, þá hafa ekki margir einstaklingar verið íslenskri menningu nýtilegri síðustu áratugina en þessi sextugi unglingur.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!