Laugardagur 12.05.2012 - 17:40 - FB ummæli ()

Við græðum öll

Álfasala SÁÁ stendur nú um helgina.

Ég hef sagt það áður en endurtek það þá núna:

Tvö svona merki eða gripi sem styrktarfélög og samtök selja kaupi ég alltaf og undantekningarlaust á hverju ári.

Annars vegar neyðarkall björgunarsveitanna og hins vegar álfinn frá SÁÁ.

Fá samtök sinna mikilvægari hlutverki á þessu landi – með djúpri virðingu fyrir öðrum.

Björgunarsveitirnar koma og finna okkur ef við höfum týnst í heiminum.

SÁÁ hjálpar okkur að finna leiðina til baka ef við höfum villst í sálinni.

Og tekið skammlífa fíkn fram yfir hið raunverulega líf.

Mikið hefur áunnist í starfi SÁÁ til hjálpar fíklum á þessu landi, en stríðinu er þó hvergi nærri lokið.

Síðast í dag frétti ég um gáfaðan vel gerðan mann sem er lentur í klemmu og ætlar að leita til SÁÁ í von um hjálp.

Álfurinn getur lagt þeim manni lið – og líka börnunum hans og fjölskyldu.

Og líka samfélaginu öllu.

Með því að kaupa álf græðum við öll – en töpum engu.

Fáeinum krónum, segiði?

Það er nú varla. Því hvenær sem er gætum við sjálf eða einhverjir okkur nákomnir þurft á hjálp til halda.

Til að finna leiðina til baka.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!