Miðvikudagur 30.05.2012 - 09:30 - FB ummæli ()

Ekki hugleysi Þorvaldar

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari ætlar í mál við Þorvald Gylfason út af ummælum sem Þorvaldur viðhafði í grein sem hann birti á ensku í Þýskalandi um hrunið á Íslandi og stjórnarskrármálið.

Hin aðfinnsluverða klausa að mati Jóns Steinars snýst um að ónefndur hæstaréttardómari hafi átt þátt í að koma á koppinn kærum til Hæstaréttar vegna stjórnlagaþingskosninganna.

Sjá hér.

Þetta verður vissulega fróðlegur málarekstur.

Í bili vil ég þó aðeins taka fram eitt.

Jón Steinar sakar Þorvald um hugleysi með því að hafa klippt ummælin út úr íslenskri útgáfu sömu greinar sem birtist nú á vordögum í því fornfræga tímariti Skírni.

Eyjan skrifar:

„Segir Jón Steinar að Þorvaldi hafi brostið kjark til að hafa þær ávirðingar uppi „svo nálægt augum almennings á Íslandi.““

Svo er vitnað orðrétt í grein Jóns Steinars um málið í Morgunblaðinu í dag:

„Hann [Þorvaldur] birtir sem sagt opinberlega ærumeiðingar en heldur að sá sem fyrir verður muni líklega ekki sjá þær eða að minnsta kosti láta framferðið óátalið þar sem ummælin eru ekki birt á hefðbundnum vettvangi fyrir umræður um þjóðfélagsmál á Íslandi. Þessi höfundur verður líklega seint sakaður um hugrekki …“

Hér get ég upplýst að Þorvaldur sjálfur átti engan þátt í að umrædd klausa var ekki í hinni íslensku útgáfu greinarinnar í Skírni.

Þorvaldur skrifaði greinina upphaflega á ensku og ég var síðan ráðinn til þess verks að þýða hana á íslensku til birtingar í Skírni.

Einfaldlega af því svoleiðis verk tek ég gjarnan að mér, auk þess sem ég þekkti óneitanlega vel til þessa máls.

Ljóst var strax að jafnframt þýðingu þurfti að stytta greinina um hartnær helming svo hún passaði Skírni.

Það var partur af mínu þýðingarverki og ég gerði það nær algjörlega án samráðs við Þorvald.

Ég bar undir hann fáeinar styttinganna, og hann samþykkti þær allar umyrðalaust – nema eina, sem vel að merkja snerist ekki um þá klausu sem hér um ræðir.

Klausuna sem Jóni Steinari er uppsigað við klippti ég út umhugsunarlítið, og án minnsta samráðs við Þorvald – en ekki vegna þess að hún innihéldi einhver viðkvæm mál.

Heldur einfaldlega af því hún var hluti af kafla sem snerist um framgang stjórnlagaþingskosninganna á Íslandi.

Og fyrst nærri helmingur greinarinnar þurfti að fara, þá fannst mér augljóst að stytta mjög verulega slíkar upprifjanir – sem væru vissulega fróðlegar fyrir útlendinga, sem lítt þekktu til málsins, en mættu sitja á hakanum í grein fyrir Íslendinga.

Þetta er nú ástæðan fyrir því að umrædd klausa er ekki í Skírnisgreininni.

Ástæðan er ekki hugleysi Þorvaldar, enda veit ég ekki til að sá maður sé hræddur við neitt, heldur einfaldlega mín ritstjórnarvinna sem hann hafði í þessu tilfelli ekki minnstu afskipti af.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!