Sunnudagur 01.07.2012 - 10:15 - FB ummæli ()

Eitt af því sem ég skil ekki

Vissulega er það margt sem ég skil ekki. En eitt af því er þetta:

Það virðist hafa ráðið afstöðu ýmissa í forsetakosningunum að Ólafur Ragnar Grímsson væri líklegur til að halda vel á spöðunum þegar þyrfti að „verja málstað Íslands“ ef við töpum dómsmálinu út af Icesave.

Rétt eins og hann fór mikinn í erlendum fjölmiðlum þegar þjóðaratkvæðagreiðslur vegna Icesave fóru fram hér, og gerði það vissulega með heilmiklum bravúr.

Þegar Icesave III var til umræðu bar öllum saman um að samningurinn væri hagstæður. En andstæðingar samkomulagsins með Ólaf Ragnar í broddi fylkingar vildu þá fara dómstólaleiðina.

Svo öruggt væri að Ísland myndi vinna málið að ESA myndi áreiðanlega ekki einu sinni treysta sér með málið fyrir dómstólana.

En ESA treysti sér á endanum fyllilega til þess, og nú sýnist mér æ fleiri reikna með því að Ísland muni tapa málinu.

Ég tek það fram að ég hef persónulega ekki hundsvit á því – þetta er bara svona það sem maður skynjar í hinni margfrægu umræðu.

En fari svo gætum við þurft að borga miklu hærri upphæðir en kveðið var á um í Icesave III samningnum.

Og þá telja sem sagt margir mikilvægt að Ólafur Ragnar verði til staðar til að halda uppi málstað Íslands í erlendum fjölmiðlum.

Og þetta er einmitt það sem ég skil ekki.

Ef málið tapast fyrir dómstólum – sem herraguð gefi að gerist ekki – og við þurfum að borga meira, þá efast ég ekki um að Ólafur Ragnar muni ólmast af miklum krafti í viðtölum við BBC eða Financial Times og hverja þá fjölmiðla aðra sem þá reynast hafa áhuga á málinu.

En það mun bara ekki breyta neinu.

Eða hvað?

Við munum eftir sem áður þurfa að borga hinar háu fjárhæðir, og fyrst og fremst vegna þess að einmitt Ólafur Ragnar vildi ekki skrifa undir samninginn.

Þetta er sem sagt hluti þess sem ég skil ekki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!