Laugardagur 18.08.2012 - 17:39 - FB ummæli ()

Draugar Breiðavíkur kveðnir niður

Í mínu ungdæmi var orðið Breiðavík nánast eins og Grýla. Svonefndir „óknyttapiltar“ gátu endað í Breiðavík, sagði orðrómurinn meðal okkar barnanna. Og þar vildi enginn vera.

Samt höfðum við ekki hugmynd um hvað vistin í Breiðavík var skelfileg í raun og veru, þegar verst lét. Það tók áratugi að grafa það upp úr þoku þöggunar og lyga.

Ég kom í fyrsta sinn í Breiðavík um daginn. Hér á árum áður þegar vegir voru verri en þeir eru nú hefur staðurinn verið ansi einangraður, jafnvel á sumrin. Og á veturna getur vafalaust verið hráslagalegt í víkinni sem snýr móti opnu Atlantshafinu.

En í raun er þetta mjög fallegur og skemmtilegur staður. Sandurinn í fjörunni er furðulega hvítur (eins og reyndar inni í Patreksfirðinum) og manni líður eins og maður sé í útlöndum þegar maður rápar þar í sandinum.

Nú er rekið í Breiðavík ljómandi fínt hótel og metnaður eigendanna er mikill. Það er nóg traffík en hingað til hafa útlendingar verið í stórum meirihluta, þeir eru flestir komnir þangað á leiðinni út á Látrabjarg til að góna á lunda. Nú stendur til að sigrast á þeim neikvæða blæ sem orðið Breiðavík hefur í munni Íslendinga og fá þá í auknum mæli til að sækja hótelið heim. Og jafnvel opna einhvers konar vinnustofur á veturna fyrir þá sem vilja vinna að ritstörfum, listsköpun eða einhverju álíka í kyrrð og ró.

Ég vona að það lukkist, það vantar alla vega hvorki kyrrð né ró né náttúrufegurð. Og viðmót eigenda og starfsfólks er sérlega vinsamlegt. Þegar ég var þarna var hópur kvikmyndagerðarfólks á staðnum að taka upp stuttmynd með einhverju draugalegu ívafi. Það verður gaman að sjá hana, en ég held nú samt raunar að hinir fornu draugar Breiðavíkur hafi nú verið kveðnir niður.

Fjaran í Breiðavík, horft upp að hótelinu og kirkjunni.

Breiðavík, myndin er tekin af veginum út að Látrum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!