Miðvikudagur 22.08.2012 - 15:17 - FB ummæli ()

Skammist ykkar!

Hvaða óforskömmuðu siðleysingjar reka eiginlega þessi svokölluðu „smálánafyrirtæki“?

Akkúrat þessa dagana er tvennt að gerast.

Gagnrýni á smálánafyrirtækin og grimma markaðssetningu þeirra hefur aukist, enda eru vísbendingar um að kornungt fólk sem kann ekki ennþá með peninga að fara, eða er jafnvel djúpt sokkið í net fíkniefnaneyslu, séu meðal helstu viðskiptavinanna.

Og svo eru skólarnir að byrja – tími þegar foreldrar þurfa að reiða fram heilmikla peninga fyrir bæði skólavörum og nýjum fötum, og það eiga ekkert allir auðvelt með það. Og fæstum foreldrum mun þykja beinlínis æskilegt eða sniðugt að ýtt sé undir þá markaðsvæðingu unga fólksins, allt niður í barnaskóla, sem þegar er orðin alltof mikil af hálfu kaupahéðna og auglýsingamanna.

Þá trommar eitt smálánafyrirtækið upp með þessa auglýsingu hér. Lára Hanna Einarsdóttir klippti hana út úr ljósvakanum.

Á þetta að vera fyndið, já? Á að afsaka þetta með því? Tja, mér finnst þetta alla vega ekkert fyndið.

A: „Jæja, ertu tilbúinn í skólann?“

B: „Ááááá.“

A: „Af hverju ertu svona stúrinn?“

B: „Þetta eru föt síðan í fyrra, og þessi taska er alltof hvolpaleg. Tíkurnar munu örugglega ekki líta við mér.“

A: „Svona, svona. Við kíkjum bara inn á Smálán.is. Þú segir bara hvað þú vilt mikið og í hve langan tíma og færð peninginn um leið.“

B: „Hei, sjáðu þessa, hún var að þefa af rassinum á mér í dag!“

Mér finnst að forráðamenn þessa fyrirtækis ættu að skammast sín. Og raunar finnst mér ennfremur að þeir auglýsingagerðarmenn sem tóku þátt í að búa til þessa hörmung mættu líka hugsa sinn gang.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!