Laugardagur 25.08.2012 - 18:59 - FB ummæli ()

Tryggvi Þór

Í gær var Anders Behring Breivik dæmdur í Noregi fyrir sín viðurstyggilegu fjöldamorð.

Þá skrifaði Tryggvi Þór Herbertsson eftirfarandi á Facebook-síðu sína:

„Dýrið Anders Brevik fékk makleg málagjöld í dag. Vonandi fær hann aldrei að sjá dagsljósið aftur. En finnst engum athugavert að safna börnum og unglingum kerfisbundið saman á afskekktri eyju í þeim tilgangi að innræta þeim tiltekna flokkspólitíska stjórnmálaskoðun????“

Nú er það svo að ég að minnsta kosti lít ekki endilega á Facebook sem ræðupúlt fyrir mjög úthugsaðar skoðanir. Þar tjá menn sig gjarnan í flýti og stundum án þess að íhuga hugdettur sínar að ráði.

Mér finnst því yfirleitt allt í lagi að leyfa fólki aðeins „frjálslegri“ tjáningu á Facebook en í ígrundaðri skrifum.

En samt.

Tryggvi Þór Herbertsson er þingmaður og jafnvel ráðherraefni á Íslandi, og maður þaulvanur að tjá skoðanir sínar opinberlega.

Því ætla ég að leyfa mér að herma skoðanirnar í Facebook-færslunni upp á hann.

Og skemmst er þá frá því að segja að mér finnst þær skoðanir sem Tryggvi Þór lýsti í gærkvöldi vera svo forkastanlegar að það standi nú upp á hann að íhuga þær vandlega.

Ég hef orðið var við að eftir að hneykslunarraddir heyrðust um orð Tryggva Þórs, þá hafa ýmsir komið honum til varnar með því að segja sem svo: „Nú, hefur hann þá ekki málfrelsi? Má hann ekki lýsa skoðunum sínum?“

Og jú – málfrelsi hefur hann svo sannarlega. Og fullt frelsi til að lýsa skoðunum sínum. En þá verður hann vitanlega líka að sitja undir því að þær skoðanir séu gagnrýndar – og gagnrýndar harkalega, ef ástæða er til.

Eins og núna.

Í fyrsta lagi – spurningin um „innrætingarbúðirnar“ á hinni „afskekktu eyju“. Sú spurning var raunar svo ósmekkleg á þessum degi og af þessu tilefni að maður ætti í raun og veru ekki að virða Tryggva Þór svars. En ég ætla nú samt að láta það eftir honum að svara henni stuttlega.

Þá er frá því að segja að með því að tengja fjöldamorð saman við tilvist sumarbúða jafnaðarmanna í Útey hefur Tryggvi Þór Herbertsson skipað sér að þessu leyti í hóp með Glenn Beck – þeim manni sem er svo langt út á öfgajaðri ameríska Repúblikanaflokksins að meira segja Fox News losaði sig að lokum við hann.

Sjá hér.

Og vil ég nota tækifærið og óska þeim Glenn Beck og Tryggva Þór hjartanlega til hamingju hvor með annan.

Ennfremur hlýt ég að taka fram að starfsemin í Útey sker sig á engan hátt frá margvíslegri ungmennastarfsemi bæði stjórnmálaflokka og annarra samtaka um víða veröld. Nema kannski að því leyti hvað hún er betur heppnuð. Sumarbúðirnar í Útey ganga út á að þroska samfélagsmeðvitund unga fólksins og efla það til dáða, jafnt persónulega og pólitískt.

Eftir því sem ég best veit hefur enginn og aldrei nokkru sinni kvartað undan því að í Útey hafi átt sér stað „innræting“ í neinum neikvæðum skilningi þess orðs.

Og ég veit ekki til að þar séu haldin „bjórkvöld“ eins og maður hefur fyrir satt að til dæmis ungliðasamtök Sjálfstæðisflokksins hafi gjarnan haldið til að lokka að unga fólkið hér á Íslandi.

En öllu nánar sé ég ekki ástæðu til að svara efnislega hinni ósmekklegu spurningu Tryggva Þórs.

Því hún var fyrst og fremst til marks um svo yfirþyrmandi smekkleysi og svo einkennilega dómgreind að ég get því miður ekki orða bundist.

Nú veit ég ósköp vel að Tryggvi Þór var auðvitað ekki að bera blak af fjöldamorðingjanum með þessu – en með því að tengja þetta saman á þeim degi sársauka og uppgjörs sem gærdagurinn var fyrir Norðmenn, þá varpar hann samt skugga yfir daginn.

Þingmaður og kannski ráðherraefni hlýtur að gera ráð fyrir að orð hans fari víðar en flestra annarra.

Og að nefna þetta í gær var eins og ef dauðadrukkinn ökufantur hefði keyrt niður barnið mitt á götuhorni og svo hefði Tryggvi Þór mætt í sjálfa erfidrykkjuna og klöngrast þar upp á stól síðla kvölds og heimtað að fá að halda ræðu: „Bölvuð fyllibyttan. En finnst engum athugavert að krakkanum skuli hafa verið hleypt út í stórhættulega umferðina?“

Ég vona að ég þurfi ekki að skýra þetta frekar.

Viðbrögð Norðmanna sjálfra við hinum hryllilegu atburðum í Útey og Osló hafa einkennst af ótrúlegri stillingu og aðdáunarverðri smekkvísi. Ég er þó ekki viss um að jafnvel þeir hefðu getað stillt sig ef Tryggvi Þór hefði verið gasprandi þetta í gær á þeirra heimaslóðum.

Og í þriðja lagi – „dýrið … fékk makleg málagjöld í dag. Vonandi fær hann aldrei að sjá dagsljósið aftur.“

Svo vill til að eitt af því sem helst hefur vakið aðdáun varðandi viðbrögð Norðmanna hefur verið hve staðfastlega þeir hafa hafnað því að „skepnuvæða“ Anders Breivik.

Hann er ekki „dýr“ í þeim skilningi sem Tryggvi Þór vill leggja í það orð, hann er maður. Og hversu sárt sem það var fyrir þá, ákváðu Norðmenn að meðhöndla eins og mann allt frá upphafi og gæta ýtrustu mannréttinda hans.

Og þó það hafi verið erfitt að horfa upp á þetta glottandi afstyrmi gera sig breiðan í réttarsalnum í Osló, þá var stefna Norðmanna sú eina rétta.

Mannréttindi eru því aðeins einhvers virði að þau gildi fyrir alla. Ekki aðeins fyrir þá sterku.

Líka fyrir þá smæstu og veikustu.

Og jafnvel – þótt það sé stundum erfitt – fyrir þá verstu.

Meira að segja orð Tryggva Þórs um „dýrið“ sem á ekki að fá að „sjá dagsljósið aftur“ eru því til vitnis um dómgreindarleysi hans.

Við getum öll misst eitthvað út úr okkur í bræði. En Tryggvi Þór er þingmaður sem skrifar þetta eftir löng réttarhöld mánuðum saman sem hefðu átt verða honum til umhugsunar – og vekja dómgreind hans.

Ef flokkur Tryggva Þórs gerir hann til dæmis að ráðherra í ríkisstjórn Íslands, er þetta þá sú dómgreind sem hann mun sýna í embætti?

Ég vona ekki. Það veit guð almáttugur, ég vona ekki.

 

 

 

 

 

– – – –

Til að leggja áherslu á að ég vona að þeir Tryggvi Þór og Glenn Beck eigi samleið á sem allra fæstum sviðum (!), þá bætti ég eftir á inn orðunum „að þessu leyti“ í setninguna þar sem segir “ … hefur Tryggvi Þór Herbertsson skipað sér að þessu leyti í hóp með Glenn Beck …“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!