Miðvikudagur 10.10.2012 - 12:17 - FB ummæli ()

Ef það er nógu gott fyrir Ara, er það nógu gott fyrir mig

Nú síðustu 10 dagana fyrir atkvæðagreiðslu um stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs hafa andstæðingarnir greinilega ákveðið að hamra það járn að frumvarpið hefði í för með sér skerðingu á hlut landsbyggðarinnar.

Þingmönnum þeirra myndi fækka af því í frumvarpinu er kveðið á um að atkvæði alls staðar á landinu skuli vega jafnt.

Og að ákvæði um aukið persónukjör muni hafa í för með sér að eingöngu latté-lepjandi Séð-og-heyrt „stjörnur“ úr 101 Reykjavík nái kjöri, lið sem hafi engan skilning á málefnum landsbyggðarinnar.

Um seinna atriði vil ég aðeins segja þetta: Heyr á endemi! Ef menn hafa svo litla trú á niðurstöðu kjósenda með auknu persónukjöri, þá er spurning hversu lýðræðislegt hugarfar býr yfirleitt að baki.

Auðvitað er kjósendum treystandi til að velja gott fólk, og þar á meðal gott fólk af landsbyggðinni, á Alþingi.

Sjálfsagt mun aukið persónukjör öðruhvoru leiða til þess að kjósendur geri „mistök“ og sendi inn á þing fólk sem þangað á ekkert erindi.

En það er nú ekki eins og það hafi aldrei gerst áður!!

Um fyrra atriðið – já, kannski fækkar þingmönnum landsbyggðarinnar eitthvað. Það er reyndar ekki sjálfgefið með auknu persónukjöri, og fækkunin verður ekkert endilega mikil, en gæti vissulega gerst.

En ætti það virkilega að koma í veg fyrir sjálfsagt jafnréttisákvæði um jafnan kosningarétt allra á landinu?

Ég er og verð fram í rauðan dauðann dyggur stuðningsmaður þess að stutt verði með öllum ráðum við bakið á byggð bæði vítt og breitt um landið.

En ég er ekki sannfærður um að rétta leiðin til þess sé fyrst og fremst að senda svo og svo marga þingmenn á Alþingi – og viðhalda með því undarlegu misræmi í atkvæðavægi hjá 330.000 manna þjóð.

Þegar ég er spurður um þetta atriði af áhyggjufullu landsbyggðarfólki, þá á ég síðan ágætt svar upp í erminni.

Í stjórnlagaráði sat Ari Teitsson bóndi á Norðausturlandi. Hann var meira að segja kosinn varaformaður ráðsins.

Ara þekkti ég ekki áður en starfið í stórnlagaráði hófst. Þekkti bara til hans sem eindregins og mjög ákveðins talsmanns bænda og landsbyggðarfólks.

Ari tók sæti í þeirri nefnd stjórnlagaráðs sem mótaði tillögurnar um kosningakerfið og atkvæðisréttinn.

Ég vissi af því að hann var mjög fastur fyrir og ætlaði ekki að láta vaða yfir landsbyggðina!

Enginn hafði reyndar áhuga á því, en ef einhver hefði nú verið með tilburði til þess, þá hefði verið honum að mæta – það var greinilegt.

En hann var líka sanngjarn og víðsýnn og sáttfús þar sem það átti við.

Ég leit á það sem heiður að fá að kynnast honum svolítið í þessu starfi.

Og ég hugsaði með mér þegar ég horfði á hann rétta upp hönd til að lýsa stuðningi sínum við endanlegar tillögur stjórnlagaráðs:

Ef einhver skyldi nú fara að ímynda sér að í þessum tillögum sé hlutur landsbyggðarinnar fyrir borð borinn, þá mun ég alltaf geta vísað til þess að slíkt hefði Ari Teitsson aldrei samþykkt.

Svo í málum landsbyggðarinnar gildir að ef það er nógu gott fyrir Ara, þá er það nógu gott fyrir mig.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!