Fimmtudagur 11.10.2012 - 20:25 - FB ummæli ()

Að veifa röngu tré

Lögfræðingarnir Ágúst Þór Árnason og Skúli Magnússon eru á móti stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs.

Þeir vilja nefnilega að plagg sem þeir hafa sjálfir skrifað verði gert að stjórnarskrá.

Vitanlega er allt í góðu lagi með það. Hver má sína skoðun á málinu sem hann eða hún kýs, og ég skil vel að lögfræðinga langi til að skrifa stjórnarskrá.

En ég er aftur á móti að verða svolítið þreyttur á einu sem alltaf dúkkar upp aftur og aftur í málflutningi Ágústs Þórs og Skúla, og reyndar sumra annarra líka.

Að það sé voðalega dónalegt að ætla að gera miklar breytingar á núverandi stjórnarskrá vegna þess að hún hafi verið samþykkt með 95 prósentum atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944.

Það sýni að þjóðin hafi fyrir 68 árum verið mjög ánægð með stjórnarskrána, og þess vegna megi ekki breyta henni mikið.

Röksemdafærslan finnst mér í sjálfu sér frekar klén. Þó eitthvað hafi verið samþykkt með miklum meirihluta árið 1944, af hverju má þá ekki umbylta því nú á vorum dögum?

Mér finnst það satt að segja ekki skipta máli hvernig atkvæði féllu þá – það eru nútíminn og framtíðin sem skipta máli.

En látum það nú vera.

Aðal gallinn við málflutning Ágústs Þórs og Skúla (og t.d. Reimars Péturssonar) um þetta atriði, er að þetta er einfaldlega rangt.

Þjóðin var EKKI að lýsa ánægju með stjórnarskrána í kosningunum 1944.

Þær kosningar snerust um sambandsslitin við Danmörku.

Sambandsslitin voru viðkvæmt mál.

Danir höfðu verið hernumdir af Þjóðverjum, og sumum fannst ekki við hæfi að við færum að stökkva úr sambandinu við þær erfiðu aðstæður fyrir þá.

Og hér sátu stórveldin Bretar og Bandaríkjamenn.

Íslenskir stjórnmálamenn litu á það sem lífsspursmál að geta sýnt fram á algjöra samstöðu þjóðarinnar um sambandsslitin og þar með nýja stjórnarskrá.

Þess vegna var rekinn massífur áróður fyrir því að allir kysu, og kysu „rétt“.

Alveg burtséð frá því hvernig mönnum féll í raun við stjórnarskrána, sem var í grundvallaratriðum gamla stjórnarskráin sem við höfðum þegið „úr föðurhendi“ danska kóngsins árið 1874.

Og mörgum féll satt að segja alls ekki vel við þessa stjórnarskrá.

Þetta er ekkert mín kenning – þetta er bara niðurstaða allra sagnfræðinga sem um málið hafa fjallað.

Og þetta hljóta Ágúst Þór og Skúli að vita.

Samt halda þeir áfram að hamra á hinni glæsilegu prósentu.

En staðreyndin er sú að mjög margir höfðu mjög miklar efasemdir um hina „nýju“ stjórnarskrá þegar árið 1944.

En greiddu henni atkvæði sitt til að samstaðan yrði sem mest.

Svo Danir og Bretar og Bandaríkjamenn og heimsbyggðin öll sæi að Íslendingar stæðu saman sem einn maður!

Sjá til dæmis þetta.

Þeir sem eru á móti stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs ættu að tala gegn því af öllum sínum kröftum.

En ekki veifa þessu ranga tré.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!