Föstudagur 12.10.2012 - 11:35 - FB ummæli ()

Víst eigum við að gæta bróður okkar

Það er margt á seyði og að mörgu að hyggja.

Við þurfum að undirbúa okkur fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna eftir viku, þar sem fólk getur greitt því atkvæði að stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs verði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá Íslands – og mun þá verða til verulegra bóta fyrir íslenskt samfélag.

Við þurfum líka að fylgjast með nýjustu skandölunum, og þurfum að hafa okkur öll við.

Í þessari viku er það Orkuveitan, í síðustu viku voru það Ríkisendurskoðun og ótrúlegur framúrakstur við kaup á bókhaldskerfi ríkisins.

Það er ekki eitt, það er allt.

(Meðal annars þess vegna þurfum við nýja stjórnarskrá. Í frumvarpinu er kveðið á um miklum mun opnari stjórnsýslu, sem mun áreiðanlega eiga sinn þátt í að hneykslismálin úldni síður bak við lokaðar dyr.)

En þótt það sé sem sagt mörgum stórum málum að sinna, þá skulum við ekki gleyma vorum minnstu bræðrum og systrum.

Í Kastljósi fyrr í vikunni var fjallað um þá ósvinnu að geðsjúkir afbrotamenn séu vistaðir í fangelsi hér á landi – þótt öllum megi vera ljóst að svo eigi alls ekki að vera.

Hérna er seinni hlutinn af umfjöllun Kastljóss.

Það mun ekki vera um nema innan við tug einstaklinga að ræða í þessu tilfelli.

Þeim mun frekar eigum við að einhenda okkur í að koma þessum málum svo að við getum horfst hnarreist í augu við heiminn og staðhæft að já, víst eigum við að gæta bróður okkar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!