Laugardagur 13.10.2012 - 11:08 - FB ummæli ()

Burt með launhelgarnar

Valdastéttir hafa alltaf gripið til þess ráðs til að halda völdum sínum að sveipa sig launhelgum.

Þær hafa skapað í kringum sig það andrúmsloft og þær hefðir að enginn geti í rauninni skilið samfélagið og umheiminn til fulls, nema sá sem er innvígður í þessar launhelgar.

Og hvað þá fengið að ráða einhverju!

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um launhelgar trúarbragðanna. Þar taka launhelgamenn sér það vald að túlka orð sjálfs almáttugs guðs – og vei þeim sem bukkar sig ekki og beygir fyrir duttlungum þeirra!

Á miðöldum varð konungsvaldið að launhelgum, og lénsveldið í öllum sínum myndum. Enginn gat verið fær um að stjórna nema „rétta blóðið“ rynni í æðum hans.

Veldi karla yfir konum var líka sveipað endalausum launhelgum. Þeir áttu að hafa yfirnáttúrulega hæfileika til að deila og drottna yfir fákunnandi kvensniptum.

Við höldum kannski að á okkar dögum séu launhelgarnar á undanhaldi, og enginn láti sér lengur detta í hug að einhver einn valdahópur sé nánast til þess fæddur að ríkja yfir samfélaginu – í krafti ætternis, þekkingar, sérstakra tengsla eða innsæis.

En það er nú eitthvað annað. Launhelgarnar eru á fullu í samfélaginu að telja okkur vesælum trú um að okkur sé hollast að lúta föðurlegri leiðsögn þeirra.

Stjórnmálaflokkarnir eru slíkar launhelgar þegar verst lætur. Muniði þegar maður nokkur þurfti að sýna öðrum manni fram á að sá þriðji hefði nægilega góð sambönd til að koma að gagni í tilteknu máli? Það var varla tilviljun að hann sagði þá að þriðji maðurinn væri „innvígður“ – rétt eins og sagt er um launhelgar.

Á árum „góðærisins“ urðu bissnissmennirnir okkar og útrásarvíkingarnir að slíkum launhelgum. Þegar við hristum hausinn yfir flugi þeirra nálægt sólinni, þá var okkur sagt að við gætum aldrei skilið þessa snilld. Við skyldum láta okkur nægja gullið sem sáldraðist niður til okkar frá nestinu þeirra í háloftunum.

Og vera þakklát.

Nú eru enn einar launhelgarnar uppi.

Nú er okkur sagt að við getum ekki sjálf sett okkur stjórnarskrá af því við erum ekki lögfræðingar og fræðimenn.

Launhelgar lögfræðinnar hafa tekið við af launhelgum kaupsýslumannanna.

Og enn sem fyrr er okkur tjáð að því miður – þá munum við bara aldrei skilja þetta – og okkur sé hollast að láta hina „innvígðu“ um að stjórna þessu.

En fyrirgefiði – ég neita því.

Ég neita því að við getum ekki sett okkur nýja stjórnarskrá sem hefur í för með sér bætta stjórnsýslu, auðlindir í þjóðareigu, aukna ábyrgð stjórnmálamanna, stóraukið gegnsæi í samfélaginu, miklu betri og skýrari reglur um mannréttindi, stórlega aukin áhrif almennings á lagasetningu og ákvarðanir Alþingis.

Ég neita því að stjórnlagaráð 25 einstaklinga af öllu tagi geti ekki sett okkur sanngjarnar og réttlátar og hógværar reglur um gangverk samfélagsins – heldur ættum við kurteislega að beygja okkur undir launhelgar lögfræðinganna og stjórnmálamannanna og hinna góðviljuðu fræðimanna sem einir hafi vit og þekkingu, tengsl og innsæi til að setja okkur reglur.

Ég neita því – og ég vona að sem flestir Íslendingar taki í sama streng og fari á laugardaginn eftir viku og feyki burt svolitlu af launhelgunum sem alltof lengi hafa reist múra um samfélagið.

Milli okkar og hinna innmúruðu og hinna innvígðu sem öllu vilja ráða.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!