Þriðjudagur 16.10.2012 - 11:18 - FB ummæli ()

Sviss og landsliðið

Væntanlega verður troðfullt á Laugardalsvelli í kvöld þegar íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Sviss. Enda verður að segjast að Ísland hefur líklega aldrei verið í betri stöðu til að gera rósir í undankeppni fyrir stórmót.

Skemmtilegast við íslenska liðið um þessar mundir er að það spilar miklu liprari fótbolta en oftast áður. Sú þróun hófst reyndar undir stjórn Ólafs Jóhannessonar, en árangurinn í stigum talið varð minni en efni stóðu til. Nú er leikurinn farinn að skila stigum líka, og það er auðvitað miklu skemmtilegra!

Andstæðingarnir eru hins vegar öngvir aukvisar, eins og þar stendur. Kannski gera menn sér almennt ekki grein fyrir því hve Svisslendingar eru sterkir um þessar mundir. Þeir eru í 11. sæti yfir Evrópuþjóðir á styrkleikalista alþjóðafótboltasambandsins FIFA – fyrir ofan Dani, Svía, Tékka, Norðmenn, Íra, Bosníumenn, Belga, Serba, Tyrki, Slóvena, Úkraínumenn.

Og spölkorn fyrir ofan okkur, þó við höfum vissulega rokið upp listann síðustu mánuði.

En það er þó full ástæða til að búast við jöfnum og skemmtilegum leik.

Að lokum  hlýt ég að taka fram að mér fannst KSÍ og Aron Einar Gunnarsson bregðast rétt við málinu sem upp kom út í Albaníu. Síðustu daga hafa heyrst fáeinar raddir sem segja að KSÍ og fjölmiðlar hafi brugðist alltof harkalega við.

Það var alls ekki raunin. Þetta mál hefði getað dregið langan dilk á eftir sér og það var rétt af Geir Þorsteinssyni formanni KSÍ að reyna ekki að draga neina fjöður yfir að þetta var alvarlegur afleikur leikmannsins.

Á sama hátt er Aron Einar maður að meiri fyrir afsökunarbeiðni sína – og alveg sérstaklega að hann hefur ekki reynt að afsaka sig á nokkurn hátt, eða færa fram einhverjar vandræðalegar skýringar á mistökum sínum.

Heldur sagði bara: „Afsakið. Ég gerði mistök. Ég ætla að læra af þessu og aldrei gera það aftur.“ Punktur.

Afsökunarbeiðnir á Íslandi eru fágætar, og yfirleitt fylgir þeim fyrirvari – „já, en ég meinti sko … þetta var sko í rauninni því að kenna að …“

Aron Einar sleppti þessu alveg, og gott hjá honum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!