Miðvikudagur 17.10.2012 - 11:23 - FB ummæli ()

Fúsk? Æ, ég held ekki

„Fúsk“ segir Bjarni Benediktsson að tillögur stjórnlagaráðs séu.

Þetta orðaval fer svolítið í taugarnar á mér.

Í áratugi hafa menn ætlað sér að skrifa nýja stjórnarskrá. Þó nokkrar atrennur hafa verið gerðar og langar skýrslur skrifaðar. Að því verki hafa unnið stjórnmálamenn, lögfræðingar og aðrir sérfræðingar. Nú síðast var kallaður saman Þjóðfundur til að setja fram þau grunngildi sem ný stjórnarskrá ætti að vera byggð á.

Sumir andstæðingar tillagna stjórnlagaráðs hafa upp á síðkastið séð sér hag í því að tala niður þennan Þjóðfund. Það finnst mér ansi ómerkilegt af þeim. Þar sat þverskurður þjóðarinnar (þar á meðal rétt hlutfall sjálfstæðismanna) og lýsti skoðunum sínum á því hvernig samfélagið ætti að vera, og það er ekkert annað en yfirstéttarhroki að ætla sér nú að gera lítið úr þessum fundi.

Þá tók afar vönduð stjórnlaganefnd við keflinu og setti fram álitamál og hugmyndir á mjög skýran hátt, og lagði frábæra skýrslu sína í hendurnar á stjórnlagaráði.

Á þessum grunni kom síðan saman 25 manna stjórnlagaráð, fólk úr ýmsum áttum og með ótrúlega ólíkan bakgrunn, en til dæmis allnokkrir lögfræðingar og stjórnmálafræðingar, og vann sleitulaust í fjóra mánuði með frábæru starfsfólki að því búa úr garði tillögur að nýrri stjórnarskrá.

Fjórir mánuðir er til dæmis jafn langur tími og það tók að smíða bandarísku stjórnarskrána og þar var þó unnið algjörlega frá grunni.

Það er ekkert við því að segja þótt Bjarni Benediktsson sé ekki sáttur við hvert einasta atriði sem fram kemur í tillögum stjórnlagaráðs. Ég er sjálfur ekkert 100 prósent ánægður við hvert einasta atriði þar. Ég er hins vegar sannfærður um að þegar á heildina er litið sé þvílík framför að þessum tillögum að það væri fásinna að hafna þeim.

Ef Bjarni er annarrar skoðunar, þá það. Hann hefur fulla heimild til þess. Og segi þjóðin „já“ við megin tillögu stjórnlagaráðs, þá hefur hann tækifæri til þess á Alþingi að reyna að sýna fram á að gallarnir séu svo miklir að gera verði breytingar. Hann hefur líka fulla heimild til þess.

En mikið væri gott ef hann gæti stillt sig um að kalla þetta verk „fúsk“.

Þegar við 25-menningarnir í stjórnlagaráði skrifuðum nöfnin okkar undir tillögur ráðsins, þá var það á grundvelli allrar þeirrar vinnu okkar og annarra sem ég rakti hér áðan.

Og ég skal trúa Bjarna fyrir því að ég að minnsta kosti var svolítið stoltur þegar ég skrifaði þarna nafnið mitt. Ég held að þau félagar mínir hafi verið það líka.

Við skrifuðum undir að mjög vel athugðu máli, eftir langt og vel ígrundað starf, og við vissum nákvæmlega hvað við vorum að gera.

Þetta var sem sé ekki „fúsk“.

„Fúsk“ myndi það aftur á móti heita ef menn pára nafnið sitt undir eitthvað án þess að hafa mikla hugmynd um hvað þar stendur, eða hvað það felur í sér.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!