Fimmtudagur 18.10.2012 - 10:52 - FB ummæli ()

„Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík“

Andstæðingar hinna nýju stjórnarskrártillagna eru enn við það heygarðshorn að það skipti ógurlega miklu máli að 95 prósent atkvæðisbærra manna hafi samþykkt lýðveldisstjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944.

Reyndar hef ég heyrt furðulegasta fólk halda þessu á lofti.

Þessi háa prósentutala sýni að þjóðin hafi unnað stjórnarskránni heitt, og þess vegna sé af einhverjum ástæðum bæði óþarfi og eiginlega dónaskapur að breyta henni mikið núna.

Eins og margir hafa bent á, er þetta í senn rangt og rangt.

Rangt vegna þess að jafnvel þó mikil ánægja kunni að hafa ríkt með tiltekið plagg fyrir 68 þá þýðir það auðvitað ekki að ekki megi breyta því að ráði síðan.

Og rangt vegna þess að staðreyndin er einfaldlega sú að það ríkti alls ekki einhugur og ánægja með lýðveldisstjórnarskrána.

Sjálfur skrifaði ég til dæmis um þetta hér.

Nú hefur Guðni Th. Jóhannesson tekið af öll tvímæli um þetta í grein sem hann birtir á þessari heimsíðu sinni.

Greina sem um ræðir má finna hér, en ég tók mér það bessaleyfi að afrita greinina og birta hana hérna. Greinin var upphaflega erindi sem flutt var á fundi Stjórnarskrárfélagsins.

Hér tekur grein Guðna Th. við:

„Staðreyndir eru þrjóskar. Engu breytir hvað við vonum, viljum eða þráum; þær standa óhaggaðar eftir sem áður.“ Þannig mælti bandaríski stjórnmálaskörungurinn John Adams á sínum tíma. Nú er ekki þar með sagt að staðreyndir tali einfaldlega sínu máli, að túlkanir skiptu engu og hægt sé að finna hinn eina stóra sannleika um það sem gerðist forðum. Heimildirnar – staðreyndirnar sem eftir lifa – þarf að bera saman, túlka og geta í eyður þar sem við á.

Þar að auki þarf fólk að viðurkenna fyrir sér og öðrum til hvers leikurinn er gerður þegar liðin tíð er rifjuð upp. Er ætlunin að vitna í söguna til stuðnings ákveðnum málstað samtímans eða stendur viljinn einfaldlega til þess að vita hvað gerðist forðum daga?

Í rannsóknum á sögunni þykir það einatt til fyrirmyndar að stefna að hlutlægni, líta á atburði og einstaklinga frá ólíkum sjónarhólum og forðast þá freistingu að draga aðeins það fram sem styður manns eigin kenningar en gera lítið úr hinu. Þetta getur verið erfitt. Jafnframt er enginn dómari í eigin sök og öll erum við börn okkar tíma.

Umhverfið hefur áhrif á skoðanir okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Skoðanir um liðna tíð verða aldrei eins og niðurstöður flestra raunvísindalegra tilrauna, óháðar tíma og rúmi. Samt má afstæðishyggjan aldrei verða alger því að þá getur hver sem er haldið fram hverju sem er. Sumt ætti ekki að þurfa að deila um.

Allt það sem hér hefur verið rakið má hafa í huga þegar sögunni víkur að efni þessa erindis, aðdraganda lýðveldisstjórnarskráarinnar. Auðvitað verður aðeins hægt að stikla á stóru en fyrst má minnast á þær fullyrðingar í umræðum líðandi stundar að ekki hafi verið fastmælum bundið að taka stjórnarskrána til gagngerðrar endurskoðunar, enda hafi þjóðin stutt hana einum rómi árið 1944. Þar að auki hefur verið sagt ástæðulaust að umbylta lýðveldisstjórnarskránni því að hún sé „svo listilega smíðuð“ eins og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, komst að orði, og „helgur gerningur“, svo vitnað sé til orða höfundar Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins.

Stjórnarskrá fengu Íslendingar fyrst árið 1849, þegar einveldi var lagt af í Danaveldi. Síðan lét Kristján IX. semja sérstaka stjórnarskrá handa þjóðinni árið 1874 og loks var skrifuð ný stjórnarskrá á grundvelli hennar árið 1920, tveimur árum eftir að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki, með ákvæði um full slit frá Danmörk eftir aldarfjórðung ef verða vildi.

Stjórnarskrá Kristjáns konungs var til framfara að mörgu leyti en betur mátti ef duga skyldi. Stóru sigrarnir komu 1901, þegar þingræði varð ráðandi í Danmörku, og svo með heimastjórn á Íslandi þremur árum síðar. Á sama hátt skipti stjórnarskráin frá 1920 ekki sköpum. Áfanginn mikli fékkst með sambandslögunum árið 1918.

Í umræðum um nýju stjórnarskrána var einkum tekist á um skilyrði til ríkisborgararéttar og hún var aldrei í hávegum höfð meðal landsmanna. Það segir reyndar líka sína sögu að lengi vel var gamla stjórnarskráin frá 1874 „týnd“: Rúmri öld síðar, þegar blaðamaður á Íslandi spurði í sakleysi sínu hvar hún væri kom á daginn að það vissi enginn hérlendis. Eftir dauðaleit fannst hún rykfallin í danska ríkisskjalasafninu, búin að vera þar frá 1928. Árið 2003 var hún svo formlega afhent Íslendingum til varðveislu.

Með öðrum orðum voru stjórnarskrárnar frá 1874 eða 1920 engir grundvallarsáttmálar í huga ráðamanna eða almennings, ekki í anda „Magna Carta“ í Bretlandi, stjórnarskrár Bandaríkjanna með hinum magnþrungnu upphafsorðum „We the people“, eða grunnlaga þýska sambandslýðveldisins. Þannig skjal höfðu Íslendingar ekki eignast og þannig var staðan þegar stríð skall á 1939.

Valdhafar á Íslandi leiddu hugann samstundis að því að endurskoða þyrfti stjórnarskrá landsins. Til þess voru fengnir fróðir menn, með Bjarna Benediktsson, þá prófessor í stjórnlagafræði, í broddi fylkingar. Á opinberum vettvangi sagði hann mesta djörfung í því að semja nýja stjórnarskrá frá grunni en viðurkenndi að sú leið gæti skapað illdeilur þegar mest á riði að umheimurinn sæi einhuga þjóð, staðráðna í að stofna eigið lýðveldi.

Þetta sjónarmið sást líka í þeirri samþykkt Alþingis í miðjum ófriðnum að þegar lýðveldi yrði senn stofnað mætti engu breyta í stjórnarskrá nema því sem nauðsyn krefði við það að þjóðhöfðingjavaldið færðist inn í landið. Lagt var fram frumvarp til stjórnskipunarlaga – nýrrar stjórnarskrár. Um leið var hins vegar tekið fram skýrum orðum að huga yrði að öðrum breytingum sem gengju í gildi þegar um hefði hægst:

„Má ætla að það starf verði öllu víðtækara og þurfi þar til að afla ýmissa gagna er nú liggja eigi fyrir, svo og að gaumgæfa reynslu þá er lýðræðisþjóðir heimsins óefað öðlast í þessum efnum á þeim tímum sem nú líða yfir mannkynið. Þangað til því verki yrði lokið ætti sú stjórnarskrá sem hér er lögð fram að nægja …“.

Allt ber að sama brunni: Í bígerð var millileikur, tímabundin breyting á stjórnarskrá uns næði gæfist til gagngerðrar endurskoðunar. Heimildir um umræður utan þings styðja þetta sjónarmið og ekki síður ummæli á Alþingi þegar rætt var um hina væntanlega lýðvelidstjórnarskrá fyrri hluta árs 1944. Hér verða aðeins nefnd nokkur dæmi:

Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis … Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf..

Stefán Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki: „… er það skoðun allrar [stjórnarskrár]nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“.

Jakob Möller, Sjálfstæðisflokki: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“

Brynjólfur Bjarnason, Sósíalistaflokki: „… nú er það svo að við stofnun hins fullvalda íslenzka ríkis ríður oss öllu framar á þjóðareiningu. … Þess vegna held ég að flestir séu nú komnir á þá skoðun að það sem gert var með stjórnarskrárákvæðinu 1942 – að takmarka breytingar á stjórnarskránni við það sem leiðir af skilnaði við Danmörku og flutningi æðsta valds inn í landið, með öðrum orðum að útiloka fyrir fram öll þau deilumál sem ágreiningi gætu valdið – hafi verið hið eina rétta.“ 

Áhersla á einingu og ágreiningi frestað: Þetta útskýrir hina „rússnesku kosningu“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sambandsslit og lýðveldisstofnun vorið 1944. Fólk var framar öllu að kjósa um skilnaðinn við Danmörku. Einn þeirra sem man þessa daga skrifaði nýlega á þessa leið:

„En í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í maí 1944 man ég ekki eftir því að nokkur maður minntist á stjórnarskrána og atkvæðagreiðsluna um hana. Það var lýðveldisstofnunin og endanlegu slitin við Dani sem á hverjum manni brann. Ég tel enda fullvíst að þorri manna hafi ekki haft hugmynd um hvað stóð í þessu plaggi sem nefndist stjórnarskrá en að sjálfsögðu sögðu flestir já við upptöku hennar, fannst það vera liður í þessu dýrðlega ferli; að losna endanlega við gömlu herraþjóðina og danska kónginn.“

Ekki má heldur gleyma sérfræðingunum, lögfræðingunum sem sögðu nær allir sem einn að lýðveldisstjórnarskráin hefði verið samin til bráðabirgða. Ólafur Jóhannesson, síðar lagaprófessor, nefndi nokkur atriði sem taka þyrfti til „rækilegrar endurskoðunar áður en gengið verður frá framtíðarstjórnarskrá hins íslenzka lýðveldis“.

Ólafur Lárusson, prófessor í lögum, tók jafnvel dýpra í árinni – og var hann þó varkár að eðlisfari: „Endurskoðun stjórnarskrárinnar er því eitt af verkefnum framtíðarinnar, náinnar framtíðar. Lýðveldisstjórnarskráin í þeirri mynd, sem hún hefur nú, er aðeins sett til bráðabirgða.“

En svo leið hin nána framtíð. Í nýársávarpi sínu 1949 kvartaði Sveinn Björnsson forseti undan seinaganginum og hvatti þingheim og aðra til dáða:

„Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. … Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“

Enn leið og beið og það er önnur saga hvers vegna bráðabirgðastjórnarskráin stóð nær óbreytt í hálfa öld. Undir lok síðustu aldar var loks breytt ákvæðum um störf Alþingis og mannréttindakafla bætt við hana. Fyrir utan kjördæmaskipan hefur annað staðið nær óbreytt, þrátt fyrir hverja stjórnarskrárnefndina á fætur annarri og áform í stjórnarsáttmálum öðru hvoru.

Hvað hefur valdið þessari tregðu? Þegar á reyndi taldi fólk kannski, innan þings sem utan, að litlu þyrfti í raun að breyta. Kannski vildi það engu breyta, og kannski átti það einkum við um valdhafana. Loks hefur óskin um einingu kannski komið í veg fyrir gagngerða endurskoðun.

Þessi álitamál tekst ég ekki á við hér. Ég hef einfaldlega rakið þær þrjósku staðreyndir að þegar lýðveldisstjórnarskráin var samin, þegar hún var samþykkt og fyrstu árin á eftir ríkti vissulega einhugur um hana – en sá einhugur snerist um að hún væri til bráðabirgða.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!