Föstudagur 19.10.2012 - 08:21 - FB ummæli ()

Spurningarnar eru ekkert loðnar

Í gær kvartaði maður nokkur við mig á Facebook yfir því að spurningarnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun væru svo „loðnar“.

Hvernig ætti hann eiginlega að greiða atkvæði við fyrstu spurningunni ef hann væri 90 prósent sammála tillögum stjórnlagaráðs, en 10 prósent á móti?

En í reynd eru spurningnar ekki hót „loðnar“.

Þær snúast bara um það hvort fólk vilji tiltekin atriði – eða ekki.

Útfærsla stjórnlagaráðs á þeim atriðum liggur fyrir, skýr og skilmerkileg.

Svo fólk er einfaldlega að greiða atkvæði um hvort sú útfærsla ætti að verða grundvöllur að nýrri stjórnarskrá.

„Loðnara“ er það nú ekki.

Ef gallar finnast á plagginu, eða almenn samstaða virðist milli þjóðar og síðan þings, um að einhverjar breytingar ætti að gera, þá verða auðvitað gerðar nauðsynlegar breytingar, en meginstefin í tillögum stjórnlagaráðs verða áfram skýrari valdmörk í stjórnkerfinu, auðlindir í þjóðareign, mun meira gegnsæi og upplýsingagjöf til að uppræta spillingu, og svo framvegis. Allt saman atriði til mikillar bóta, að mínum dómi.

Ef fólk styður þetta segir það bara „já“ við fyrstu spurningunni á morgun.

Það er ekkert „loðið“ við þetta.

Það er einfaldlega partur af því að lifa í lýðræðisríki að fá að gera upp hug sinn og ákveða hvernig maður ver atkvæði sínu.

Er ég hlynntur nógu mörgu af hinu góða í tillögum stjórnlagaráðs til að það vegi upp á móti því sem ég er efins um?

Flóknara er það nú ekki, þegar öllu er á botninn hvolft.

Á fjögurra ára fresti kýs fólk stjórnmálaflokka á Alþingi.

Maður velur þann flokk sem er manni best að skapi.

Þó er sjálfsagt enginn 100 prósent samþykkur öllu sem flokkurinn boðar.

Engum dettur í hug að kalla það „loðið“ ferli.

Og manninum sem spurði get ég svarað svona:

„Hjálpi mér hamingjan! Ef þú ert 90 prósent ánægður með tillögur stjórnlagaráðs áttu að sjálfsögðu að segja JÁ! Það er áreiðanlega sjaldgæft að fólk sé 90 prósent ánægt með stjórnarskrá sína, þegar að er gáð, svo í mínum huga er þetta engin spurning.“

Góða skemmtun á kjörstað!

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!