Laugardagur 20.10.2012 - 09:46 - FB ummæli ()

Hver fær að sjá stjórnarskrá Sjálfstæðisflokksins?

Ég ætla að brjóta reglur um að bannað sé að vera með áróður á kjörstað.

Ég mun samt ekki vera með fána og veifur niðrí Ráðhúsi þegar ég fer sjálfur að kjósa á eftir.

Ég meina þennan pistil.

Því kjörstaður í þessu tilfelli er fyrst og fremst hugur hvers einasta kjósenda.

Þegar hún eða hann gerir upp við sig hvernig velja skal milli tveggja kosta.

Í fyrsta lagi að segja „já“ við fyrstu spurningunni.

Það þýðir að til grundvallar nýrri stjórnarskrá verða tillögur stjórnlagaráðs.

Samdar í ótrúlegri eindrægni (já!) af hópi fólks sem einmitt hafði verið til þess kosið í almennri atkvæðagreiðslunni.

En byggði á starfi Þjóðfundar, stjórnlaganefndar og mikilli aðkomu almennings meðan á ritun tillagnanna stóð.

Þetta er ferli sem hefur vakið mikla athygli í öðrum löndum og þykir til sérlegrar eftirbreytni.

Og í tillögum stjórnlagaráðs felast miklar umbætur í lýðræðisátt. Samfélagið verður betra ef þessar tillögur verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár.

Það er tóm til að laga þær til, ef gallar reynast í einstökum atriðum, en sem grundvöllur að betra samfélagi eru þessar tillögur fínar.

Ef menn segja hins vegar „nei“ við fyrstu spurningunni, þá þarf að byrja aftur á núlli.

Allt starf til að rita nýja og betri stjórnarskrá verður til einskis unnið, og sams konar vinnubrögð munu ekki framar vera notuð.

Ritun á stjórnarskrá mun hverfa úr höndum þjóðarinnar sjálfrar, og inn í bakherbergi hinna innmúruðu og innvígðu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú þegar lýst því yfir að hann sé að láta skrifa nýja stjórnarskrá.

Enginn fær að frétta af því starfi.

Almenningur fær auðvitað ekki að taka neinn þátt.

Einn daginn verður hún bara lögð fram og almúganum sagt að samþykkja.

Viljum við það?

Ekki ég – þess vegna ætla ég að segja „já“ við fyrstu spurningunni.

Góða skemmtun!

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!