Laugardagur 03.11.2012 - 10:34 - FB ummæli ()

Á eitt „úbs, sorrí“ að duga?

Ég hef ekki haft geð í mér til að kynna mér nákvæmlega skýrslu rannsóknarnefndar um hátterni barnaníðinganna í Landakotsskóla. Það sem birst hefur í fjölmiðlum er alveg nógu ógeðslegt. Sjá hér.

Vert er að vekja athygli á að þótt tveir einstaklingar séu nefndir til sögu með nafni sem níðingar, þau séra Georg og Margrét Möller, þá virðast hafa verið fleiri á kreiki í skólanum.

En allt var þaggað niður.

Þið fyrirgefið, en það sem þarna átti sér stað er svo yfirgengilegt að mér finnst ekki að það dugi að biskup kaþólskra komi nú fram og biðjist afsökunar, hversu „auðmjúklega“ sem hann kann að gera það.

Ég er satt að segja alveg sótöskuvondur – og persónulega líka. Fyrir rétt rúmum 15 árum kom ég með 5 ára gamla stúlku í Landakotsskólann, sem kirkjan rak þá (en gerir raunar ekki lengur).

Enginn sagði mér frá því orði sem fór af séra Georg eða Margréti Möller. Þó virðast margir hafa vitað það. Enginn sagði mér það, og yfirvöld kirkjunnar höfðu beinlínis lagt sig fram um að leyna mig (og aðra) því að þarna var verið að leiða börn í skelfilega gildru.

Sem betur fer skynjaði stúlkan sjálf hvílíkt illmenni séra Georg var. Hún sneri sér ævinlega undan þegar hann varð á vegi hennar eða hann kom inn í skólastofuna og leit ekki við aftur fyrr en hann var tryggilega farinn. Okkur foreldrunum fannst þetta undarleg hegðun en bárum virðingu fyrir henni, svo stúlkan var tekin úr skólanum eftir einn vetur.

En að einhver biskupsnefna sem maður rakst stundum á á vappi kringum skólahúsið færi að segja manni að hafa varann á – onei.

Í áratugi hylmdi kirkjan yfir með svívirðilegustu sort af níðingum sem til eru.

Og á svo bara eitt „úbs, sorrí“ að duga?

 

–  –  –  –  –

Gunnar Smári Egilsson hefur lesið afsökunarbeiðni biskups kaþólsku kirkjunnar og samkvæmt því sem hann segir er hún forkastanleg. Af hverju vöktu fjölmiðlar ekki athygli á þessu ömurlega orðalagi þegar þeir sögðu frá málinu í gær?

Gunnar Smári vitnar í athugasemd á Facebook fyrst til orða biskupsins og bætir svo við eigin athugasemd um framhaldið:

„[Biskup segir:] „Í nafni Kaþólsku kirkjunnar á íslandi, sem og persónulega, leitar hugur minn [biskupsins] til allra þeirra sem TELJA AÐ á sér hafi verið brotið og einnig til fjölskyldna þeirra…“ Á eftir fylgir almennt tal um skaða af kynferðislegu ofbeldi. Hann sniðgengur alla ábyrgð og viðurkennir engin ákveðin brot.“

Jahá. Sá bréf biskupsins hér.

Þetta „telja að“ ætti eitt og sér að duga til að maðurinn yrði hrópaður af. Þarna er upplýst um ógeðsleg brot en biskupinn fellst á að einhverjir „telji hafa verið brotið á sér“.

Svei honum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!