Laugardagur 03.11.2012 - 17:25 - FB ummæli ()

Meistaraverk

Gunnar V. Andrésson ljósmyndari á Fréttablaðinu er kannski ekki þekktasti ljósmyndari landsins, nema helst meðal þeirra sem eru svolítið kunnugir á fjölmiðlum.

Hann hefur ekki haldið sérstakar sýningar, svo ég muni til, eða gefið út bækur. Meiriparturinn af myndunum hans eru bara ósköp venjulegar fréttamyndir, sem gefa ekki tilefni til mikilla tilþrifa, og á vinnustað hans Fréttablaðinu er ljósmyndum því miður alltof sjaldan gefið verulegt vægi.

En allir sem til þekkja vita að Gunni Andrésar er einhver mesti snillingur í þessum bransa sem Ísland hefur alið. Margar mynda hans eru eftirminnileg snilldarverk.

Við unnum svolítið saman í gamla daga, þegar ég var að byrja í blaðamennsku. Mér heftur alltaf þótt voða vænt um þessa mynd hér að neðan, sem hann tók þegar við fórum saman í göngur á Ströndunum haustið 1980. Það hefur þurft að setja fyrirsögnina oní myndina, en samt finnst mér þessi mynd alltaf segja skemmtilega sögu. Þarna standa kátir gangnamenn í einum hnapp í niðaþoku en spölkorn frá er ráðvillt höfuðborgarbarnið heldur hnípið. Það er að sjálfsögðu ég sjálfur.

 

Í sömu ferð á Strandirnar tók ég viðtal við Axel Thorarensen á Gjögri, og þá tók Gunni þessa mynd hér, sem sýnir að hann getur tekið svipmikil portrett á við hvern sem er!

 

Ég held að myndin sem Gunni eða GVA birtir framan á Fréttablaðinu í dag hljóti að teljast í hópi hans allra bestu. Ef einhver skyldi ímynda sér að svona mynd sé bara spurning um að smella af út í loftið, þá er fjarri því. Hinn þrautþjálfari fréttaljósmyndari hefur ekki aðeins þurft að skynja umhverfið, átta sig á hvað honum sjálfum fannst merkilegast við aðstæðurnar og hvað hann vildi segja með mynd sinni, hann þurfti líka að velja sér stað til að taka myndina frá og byggja hana vel upp. Afraksturinn er þetta snilldarverk þar sem ofsinn í veðrinu, hafnargarðurinn, Harpa, háhýsin í fjarska og himinhvolfið yfir spila saman á frábæran hátt. Og litli vitinn við hafnarmynnið er punkturinn yfir i-ið.

(Myndin birtist í eitthvað svolítið skrýtnum hlutföllum hér, ég kann ekki að laga það.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!