Mánudagur 05.11.2012 - 11:30 - FB ummæli ()

2. febrúar 1994: Séra George fær fálkaorðuna fyrir gifturíkt starf við Landakotsskóla

„[Séra Ágúst George hlaut] fálkaorðu fyrir farsælt starf að skólamálum. [Þann 2. febrúar síðastliðinn hlaut hann] riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir drjúg og gifturík störf í þágu Landakotsskóla um áratuga skeið. Við athöfnina, sem fram fór á Bessastöðum, afhenti frú Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands orðuna, en viðstaddir voru auk séra Georges, Alfred Jolson biskup, séra Terstroet og séra Hjalti Þorkelsson.“

Svo hefst frétt í Morgunblaðinu 19. febrúar 1994, sjá hér.

Nú er komið í ljós að störf séra Ágústs George í þágu nemenda Landakotsskóla voru svo sannarlega ekki gifturík.

Ég hef ekki geð í mér til að fjölyrða um það. Þeir sem vilja lesa hina óhuggulegu skýrslu rannsóknarnefndar um níðingsskap séra Georges geta gert það hér.

Athyglisvert er að að minnsta kosti tveir þeirra sem voru viðstaddir athöfnina á Bessastöðum vissu fullvel um ásakanir á hendur séra George.

Í skýrslunni kemur fram að Alfred Jolson biskupi var oftar en einu sinni sagt frá ásökunum á hendur séra George en hann gerði ekkert í málinu. Þá kemur líka fram að þegar árið 1985 var séra Hjalta Þorkelssyni sagt frá ásökunum á hendur séra George, en viðbrögð hans voru að segja:

„Æ æ æ æ, þetta er agalegt.“

En gera svo ekkert í málinu.

Ég ítreka að þetta var árið 1985. Séra George hélt áfram að níðast á börnum í Landakotsskóla í næstum 20 ár eftir það. Hefur einhver spurt séra Hjalta út í þetta?

En þessi athöfn á Bessastöðum 2. febrúar 1994 hlýtur nú að skoðast sem einhver svartasti bletturinn í sögu íslensku fálkaorðunnar. Það er beinlínis ógeðsleg tilhugsun að þarna hafi forseti Íslands heiðrað barnaníðing – og það einmitt fyrir það starf sem gerði honum kleift að níðast á börnum.

Og að viðstaddir hafi verið menn sem vissu hvernig í pottinn var búið.

Í 11. grein forsetabréfs um hina íslensku fálkaorðu segir eftirfarandi:

„Stórmeistari getur, að ráði orðunefndar, svipt mann, sem hlotið hefur orðuna, en síðar gerst sekur um misferli, rétti til að bera hana.“

Nú legg ég til – nei, ég krefst þess að stórmeistari fálkaorðunnar, sem er núverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, beiti þessu ákvæði þegar í stað.

Ef því verður ekki beitt í þessu tilfelli, hlýtur það að teljast marklaust með öllu.

 

 

– – – –

Forsetaritari hafði samband við mig og benti mér á þær reglur sem í gildi eru um fálkaorðuna, að við andlát orðuhafa skuli erfingjar hans skila orðunni til orðunefndar. Þær reglur eiga að tryggja að orður lendi ekki á flækingi hjá fólki sem ekki hefur fengið þær sjálft.

Orðunum væri líka oftast skilað, en þó ekki kannski alltaf. Honum hafði ekki gefist tóm til að kanna hvort erfingjar séra Georges hefðu skilað inn orðu hans þegar hann dó. Hafi það verið gert er kannski erfitt að svipta manninn orðunni, í bókstaflegum skilningi.

En reyndar átti ég náttúrlega fyrst og fremst við sviptingu orðunnar í táknrænum skilningi, fremur en hlutinn sjálfan. Það má ljóst vera.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!