Laugardagur 01.12.2012 - 11:58 - FB ummæli ()

Var framferði þingmannanna svívirðilegt?

Vissulega var furðulegt að sjá tvo þingmenn ganga framhjá myndavélum Alþingis með blöð sem á stóð: „Málþóf.“

Sjá hér.

Og ætti ég sæti á Alþingi, þá mundi ég ekki hafa gert þvíumlíkt.

Ég verð samt að viðurkenna að ég botna ekki alveg í heitfengustu hneyksluninni út af uppátæki þingmannanna.

Ef þeir Lúðvík og Björn Valur hefðu kvatt sér hljóðs eftir að nafni minn Gunnarsson lauk loks máli sínu, gengið föstum og ákveðnum skrefum í pontu og sagt þungum rómi: „Þingmaðurinn beitir málþófi“ – þá hefði enginn sagt neitt.

Enginn hefði talið þau orð dónaskap.

Og þó þeir hefðu hrópað þessi orð hástöfum fram í ræðu Illuga Gunnarssonar, þá hefðu þeir kannski í mesta lagi uppskorið þreytulegan bjölluhljóm forseta en enginn hefði kippt sér upp við það – enda stunda furðu margir þingmenn frammíköll.

En er svona ægilega miklu dónalegra að sýna skoðanir sínar, heldur en að segja þær eða hrópa þær?

Ég tek það fram að ég ætla ekki í mikinn debatt um þetta. Sjálfsagt var þetta ekki rétt aðferð hjá þeim tvímenningum. Mér datt bara í hug hvort hneykslunin stafaði kannski frekar af því að það skorti eitthvað upp á myndræna hugsun í okkar samfélagshefð, frekar en að framferði þingmannanna hafi endilega verið svo svívirðilegt.

En að svo mæltu ítreka ég að persónulega hefði ég ekki sett mál mitt fram með þessum hætti.

Og ég hefði reyndar heldur aldrei látið hafa mig út í málþóf um fjárlagafrumvarpið.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!