Mánudagur 03.12.2012 - 12:34 - FB ummæli ()

DV

Þegar herferð Napóleons til Rússlands stóð yfir fyrir réttum 200 árum voru Rússar í mikilli hættu staddir.

Maður skyldi ætla að þeirra helstu menn hefðu þá þjappað sér saman og verið samhuga við að leysa verkefnið, en það var nú eitthvað annað. Í forystusveit rússneska hersins var hver höndin upp á móti annarri og helstu hershöfðingjarnir rifust eins og óðir hundar og kettir.

Hershöfðinginn Benningsen lét skæðadrífu gagnrýninna skilaboða og tilmæla ganga yfir æðsta foringjann, hinn hégómlega og gíruga Kútúsov, sem fékk að lokum nóg.

Hann sagði að ef hann fengi ein skilaboð enn frá Benningsen myndi hann láta hengja sendiboðann á staðnum.

Að sumu leyti er ég smeykur um að DV megi þola svipaðar móttökur hjá ýmsum ráðamönnum og sendiboði Benningsens hjá Kútúsov.

Blaðið hefur misjafnt orð á sér, eins og alkunna er. Fyrir því eru ýmsar ástæður – sumar eflaust verðskuldaðar, aðrar ekki. En það er afskaplega billeg leið að svara gagnrýni, sem menn verða fyrir vegna hluta sem birtast í DV, með því að blaðið sé nú bara sorprit sem ekkert sé að marka.

Það er nefnilega langt frá því. Langsamlegasta stærstur hluti af fréttum blaðsins um hrun og spillingu hefur því miður reynst á fullum rökum reistur.

Og það rann allt í einu upp fyrir mér – okkur þykir kannski uppgjörið við hrunið ganga seint. En reynið að ímynda ykkur hvar það væri á vegi statt ef DV hefði ekki staðið sína vakt síðustu fjögur ár.

Lífið hefði verið ansi miklu þægilegra fyrir ýmsa Kútúsova þessa lands.

En við hin vissum þá ansi miklu minna um það sem hér hefur gengið á, og gerir enn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!