Miðvikudagur 12.12.2012 - 09:08 - FB ummæli ()

De Niro á flatskjánum

Það höfðu lengi verið þykkar rendur á sjónvarpinu mínu, og stundum brutust þar út brakandi truflanir svo myndin lék á reiðiskjálfi. Bersýnilega var löngu tímabært að fá sér nýtt sjónvarp.

Ég streittist hins vegar lengi við. Ef ég keypti nýtt sjónvarp, þá þyrfti það óhjákvæmilega að vera af hinni óttalegu gerð flatskjár og voru þeir ekki orsök hrunsins? Svoleiðis voðalegt bruðl?

Jú, þeir sem vildu beina athyglinni frá eigin sök á hruninu höfðu talin almenningi trú um að bruðl hans með flatskjái ætti verulega sök á bankahruninu. Og ég hafði orðið fyrir þvílíkum áhrifum frá því, nauðugur viljugur, að lengi vel gat ég bara ekki hugsað mér að festa kaup á flatskjá.

Væri ég þá ekki að stefna þráðbeint í nýtt hrun?

Að lokum voru rendurnar í sjónvarpinu samt orðnar of áberandi. Og þegar ég rakst á allt að því fáránlega ódýran flatskjá í Hagkaup gat ég ekki lengur haldið einkastríði mínu við flatskjáina gangandi. Jafnvel ég mundi ekki stefna í neitt hrun við að kaupa slíka græju.

Svo ég kvaddi gamla túbusjónvarpið með nokkrum trega og setti upp flatskjáinn. Og skemst er frá því að segja að nýtt hrun hefur ekki orðið en hins vegar hefur skjárinn orðið til þess að á mínu heimili er hafin lítil kvikmyndahátíð þar sem ýmsar gamlar og góðar kvikmyndir fá að njóta sín. Þrátt fyrir lágt verð hefur hann nefnilega reynst hið mesta þarfaþing!

Af hreinni tilviljun er Robert De Niro heiðursgestur á þessari litlu kvikmyndahátíð á nýja flatskjánum. Fyrst horfðum við á Guðföður-myndirnar allar þrjár. De Niro er þó auðvitað bara í mynd númer tvö. Ágætar myndir, sem hafa elst prýðilega.

Svo kom Once Upon a Time in America eftir Sergio Leone. Dæmalaust fín mynd, eiginlega töluvert betri en Guðfaðirinn.

Og nú erum við í miðju kafi að horfa á 1900 eftir Bertolucci. Sú nýtur sín vel á flatskjánum!

Ég er samt ennþá örlítið hræddur við nýtt hrun!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!