Miðvikudagur 12.12.2012 - 12:07 - FB ummæli ()

Nei Björg, bann við herskyldu er ekki „lítt ígrundað“

 

Björg Thorarensen lagaprófessor lætur hafa eftir sér á mbl.is að 31. grein stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs sé „lítt ígrunduð“.

Nú ber ég vissulega takmarkalitla virðingu fyrir þekkingu og hæfni Bjargar, en þetta er þó rangt hjá henni.

31. grein stjórnlagaráðs er ekki „lítt ígrunduð“.

Hún var þvert á móti afar vel ígrunduð, og hlaut heilmikla umræðu í ráðinu – bæði á nefndarfundum og á opnum sameiginlegum fundum.

Greinin hljóðar svo:

„Herskyldu má aldrei í lög leiða.“

Ég verð bara að segja – ansi þykir mér langt seilst í andstöðunni við stjórnarskrárfrumvarpið ef þessi grein á að verða misklíðarefni.

Við umræður í stjórnlagaráði komu fram ýmsar mótbárur gegn banninu við herskyldu.

Sú helst að einhvern tíma í framtíðinni gæti óvinaþjóð ógnað svo Íslandi að stjórnvöld sæju þann kost vænstan að koma hér upp her til að verja sig. Við gætum kannski ekki alveg séð þær aðstæður fyrir, en óþarft væri að binda svo hendur stjórnvalda í framtíðinni að þau gætu ekki undir neinum kringumstæðum skyldað landsmenn til að taka sér vopn í hönd.

Vissulega má vera að einhvern tíma í alveg ófyrirsjáanlegri framtíð gæti einhver hernaðarógn steðjað að Íslandi.

En að herskylda gæti verið lausn þar á er – fyrirgefiði mér innilega þó ég segi það – fáránlegt.

Á Íslandi búa nú 330.000 manns. Jafnvel þó landsmönnum fjölgi duglega næstu áratugina, þá verður hér aldrei nógu fjölmennt til að unnt verði að koma upp einhverjum fjöldaher sem gæti varist einbeittu innrásarliði.

Allra síst eins og nú er komið hernaðartækni og -tólum í veröldinni.

Einhvers konar innrás á Ísland tæki tvo daga í hæsta lagi.

Hvar ætlar generáll í hinum íslenska her að þjálfa nýliðana í hinu herskylda liði sínu?

Og hvernig ætlar hann (eða hún!) að fá tíma til þess?

Herskylda er – hvað sem líður skoðunum okkar á nauðsyn hernaðarbrölts – úrelt þing. Jafnvel burtséð frá öllum siðferðisrökum. Herskylda miðast við massaheri 19. og 20. aldar og á ekki við nútímaaðstæður.

Ef þjóðin teldi þrátt fyrir það nauðsynlegt að tromma upp með eitthvers konar her, þá er enginn vafi á að landsmenn munu gera það sjálfviljugir.

En fyrst og fremst á aldrei að þvinga nokkurn mann til að bera vopn.

Aldrei.

Svo einfalt er það.

Og það er frekar skrýtið, svo ég kveði nú ekki fastar að orði, af Björgu Thorarensen að gefa í skyn að það sé í fyrsta lagi eitthvað æskilegt og í öðru lagi mögulegt og praktískt við herskyldu á Íslandi.

Og það er sem sagt beinlínis rangt af henni að 31. greinin sé „lítt ígrunduð“. Við fórum í gegnum allar hliðar málsins.

Og komumst að þeirri niðurstöðu – öll þau 25 sem sátu í stjórnlagaráði – að herskyldu skyldi aldrei mega í löð leiða á Íslandi.

Ég vona að sem flestir fagni þessari 31. grein.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!