Þriðjudagur 19.02.2013 - 10:46 - FB ummæli ()

Kannski duga ekki sjötíu ár

Jæja.

Nú eru hafnar viðræður stjórnmálaflokkanna um hvort og þá hverju skuli hleypt í gegnum þingið af nýju stjórnarskránni.

Ojá. Það var svosem auðvitað að jafnvel nýja stjórnarskráin endaði í makki og hrossakaupum stjórnmálaflokkanna á Alþingi.

Alltaf skal allt enda með „viðræðum stjórnmálaflokkanna“.

En flokkarnir eru sem kunnugt upphaf og endir allrar hugsunar í þessu landi.

Ljóst virðist alla vega að íhaldsöflin gera sér nú góðar vonir um að þeim muni takast að stöðva nýju stjórnarskrána.

Ég meina orðið „íhald“ vitaskuld ekki bara í flokkspólitískum skilningi.

Andstaðan við nýju stjórnarskrána er vissulega knúin áfram af stórpólitískum öflum, en þau hafa eignast bandamenn víða.

Allt í fína með það í sjálfu sér. Allir hafa rétt á sínum sjónarmiðum og lífsskoðunum.

En í nýju stjórnarskránni eru reyndar ótal ákvæði sem horfa alveg ótvírætt til stórra bóta í samfélaginu.

Jafnt fyrir íhaldsfólk sem annað!

Þau ákvæði lúta að strangari kröfum um réttlæti í samfélaginu, aukin réttindi margvísleg, til dæmis barna, rétt til heilsugæslu, menntunar og jafnréttis; þau lúta að stórauknum kröfum um opnara samfélag, aukið gegnsæi, beinna lýðræði og aukin áhrif kjósenda, skýrari og skilmerkilegri stjórnsýslu á öllum sviðum, mjög auknum kröfum um umhverfisvernd, og þau snúast um auðlindir í þjóðareigu.

Hérna er hið upphaflega frumvarp stjórnmálaráðs, eitthvað er nú þegar búið að breyta því, en þið sjáið hugmyndirnar sem þarna eru á kreiki.

Ekki er þetta nú hættulegt, að mínum dómi – nema kannski auðlindaákvæðið þröngum hópi manna.

En íhaldsöflunum hefur þó lánast svo vel að kveikja tortyggni í garð þessara hugmynda að jafnvel hinir mætustu menn leggja nú sérstaka lykkju á leið sína að koma því sjónarmiði á framfæri að nýja stjórnarskráin virðist helst snúast um að „alls konar fólk“ vilji breyta Íslandi í „nokkurs konar Sviss“.

Kannski var þetta brandari sem ég hef ekki lengur húmor til að skilja. Það verður þá að hafa það.

En með vísaninni til Sviss mun vera átt við aukna möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslum um hin mikilvægustu mál. En allar aðrar hugmyndir nýju stjórnarskrárinnar greinilega vegnar og léttvægar fundnar.

Kannski var það alla tíð borin von að sjötíu ár dygðu til að setja okkur nýja stjórnarskrá. Kannski þurfum við að bíða önnur sjötíu ár.

Eða altént eftir því að ný kynslóð komi í landið.

En ég trúi því nú samt og treysti ennþá að þeir þingmenn sem nú sitja á Alþingi muni reka af sér slyðruorðið og afgreiða málið.

Það er vel hægt, og það er skylda þeirra.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!