Fimmtudagur 14.03.2013 - 14:31 - FB ummæli ()

Biskup og prófessor fagna kjöri Bergoglios

Pétur Pétursson prófessor í guðfræði er afar ánægður með nýja páfann sem kardínálar kaþólsku kirkjunnar völdu í gær.

Pétur varð þess mikla heiðurs aðnjótandi að snæða morgunverð með Jorge Bergoglio fyrir hálfum mánuði eða svo, þeim sem nú hefur tekið sér nafnið Frans fyrsti.

Og Pétur er ekki í vafa um mikla mannkosti Bergoglios og að guð sjálfur haft hönd í bagga með vali hans í embættið:

„Nýi páfinn er einn látlausasti og ljúfasti maður sem ég hef hitt og ég trúi því að heilagur andi hafi haft áhrif á þetta val.“

Svo mælti Pétur.

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands fagnaði líka kjöri hans í gær og kvaðst vonast til þess að hann yrði „verkfæri friðar og boðberi vonar“ í heiminum.

Þetta er óneitanlega svolítið skrýtið í ljósi þess að Jorge Bergoglio sagði fyrir fáeinum misserum þegar verið var að reyna að auka lagaleg réttindi svertingja í Argentínu:

„Við skulum ekki þykjast vera einfeldningar, þetta er ekki bara venjuleg pólitísk barátta, þarna er á ferðinni skemmdarverkastarfsemi gegn áætlun guðs. Við erum ekki bara að tala um frumvarp, heldur undirferli sem Faðir lyganna (djöfullinn) notar til rugla og blekkja börn guðs.“

Vissulega sagði Bergoglio líka eitthvað á þá leið að virða ætti hvern svertingja sem persónu.

En það fer þó ekki milli mála hvað hann er í raun að segja – að aukin réttindi svartra séu samsæri djöfulsins sjálfs.

Nú er ég vissulega ekki í þjóðkirkjunni, og ég hef þess vegna kannski ekkert yfir því að segja þótt biskup Íslands fagni kjöri svertingjahatara í svona virðingarstöðu.

En ég borga áreiðanlega hin og þessi gjöld til Háskóla Íslands og því þykir mér vægast sagt mjög óviðkunnanlegt að prófessor þar innan dyra mjálmi opinberlega um hrifningu sína á mannkostum manns sem líkir svertingjum beint og óbeint við þjóna djöfulsins.

Prófessor sem telur að það hafi verið heilagur andi sem upphóf svertingjahatarann í embætti höfðingja kaþólsku kirkjunnar.

Já, ég get ekki neitað því, það er mjög óviðkunnanlegt af prófessor við Háskóla Íslands.

– – – –

Reyndar voru það ekki svertingjar sem Jorge Bergoglio var að tala um í tilvitnuninni hér að ofan – þar sem hann nefndi Föður lyganna.

Það voru samkynhneigðir.

Málið snerist um lagafrumvarp í Argentínu sem átti að auka réttindi þeirra.

Ég trúi því staðfastlega að hvorki Agnes M. Sigurðardóttir né Pétur Pétursson hefðu einu látið sér til hugar koma að fagna og fara fögrum orðum um mann sem hefði talað svona um svart fólk.

En af hverju finnst þeim greinilega ekki í frásögur færandi að hann hafi talað svona um samkynhneigða?

Er ástand mála í íslensku þjóðkirkjunni enn þannig að það megi alveg líta framhjá því þegar svona er talað um samkynhneigða?

Þótt enginn myndi líða að þannig væri talað um svertingja?

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!