Miðvikudagur 20.03.2013 - 10:08 - FB ummæli ()

Þegar Árni Páll talaði sig rjóðan í framan

Sú var tíð að ákvæði í stjórnarskrá um málskotsrétt forseta Íslands var talið dautt og ómerkt.

Jafnt stjórnmálaskörungar sem lögspekingar gátu talað sig blóðrauða í framan yfir þeirri ægilegu vá sem að myndi steðja ef forseti reyndi að beita þeim rétti.

Í þingsköpum er hins vegar að finna ákvæði um að slíta megi umræðum samkvæmt ákveðnum skilmálum svo málþóf fari ekki úr öllu hófi.

En jafnt stjórnmálaskörungar sem lögspekingar virðast margir sammála um að ákvæði þetta sé bæði dautt og ómerkt.

Enda myndi mikil vá steðja að ef reynt yrði að beita þessu ákvæði.

Ég var til dæmis á fundi um daginn þar sem Árni Páll Árnason formaður Samfylkingar talaði sig rjóðan í framan um að hann myndi aldrei sætta sig við að „skerða þannig málfrelsi alþingismanna“ um hið mikilvæga stjórnarskrármál.

Þess má geta til gamans að ræðutími á þessum fundi um hið mikilvæga stjórnarskrármál var takmarkaður við þrjár mínútur, en tvær mínútur ef menn voru að tala í annað sinn.

Og eftir hálfan annan klukkutíma var mælendaskrá lokað svo umræður færu ekki úr öllu hófi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!