Þriðjudagur 09.04.2013 - 15:09 - FB ummæli ()

Biðst presturinn afsökunar?

Fréttablaðið sýnir Sighvati Karlssyni presti á Húsavík mikinn rausnarskap með því að segja að hann hafi „beðist afsökunar“ í máli Guðnýjar Jónu Kristjánsdóttur.

En hann hvatti hana á sínum tíma til að draga nauðgunarásakanir sínar með einhverjum hætti til baka.

Í fyrsta lagi segist hann bundinn þagnarskyldu um samtal þeirra.

Gagnvart hverjum, með leyfi?

Hún er búin að tjá sig um það.

Síðan segist hann „ekki rengja orð hennar“.

Höfðinglegt af honum, ekki satt?

Þar næst segist hann hafa viljað sýna Guðnýju Jónu stuðning.

„Hafi hún ekki upplifað hann þá bið ég hana afsökunar.“

Þetta er gamalt trix: Ég gerði ekkert ljótt, ef ef ske kynni að einhver hafi hugsanlega skynjað það þannig, þá get ég sosum beðist afsökunar …

Og að sjálfsögðu segir hann að sér hafi „gengið gott eitt til“.

Nema hvað því miður muni hann lítið eftir samtali þeirra, og því viti hann ekki af hverju hann hafi sagt þetta.

Og segir svo orðrétt: „Það er ekki til neins að velta þessu upp.“

Og svo: „Minn vilji var að sýna meintum geranda stuðning.“

Rétt áðan sagðist hann hafa viljað sýna henni stuðning, þótt hann muni reyndar lítið af samtali þeirra og viti ekki af hverju hann sagði það sem hann sagði!

Síðan tekur hann fram að í öllum málum sé mikilvægt að „prestur gæti hlutleysis“.

Ha?

Hlutleysis? Taki sem sagt enga afstöðu þegar annars vegar er um að ræða nauðgara og hins vegar 17 ára stúlku sem hefur verið nauðgað?

Þá á prestur að „gæta hlutleysis“!!

Og fer svo að tala um „meintan“ geranda.

Þá var reyndar búið að dæma nauðgarann sekan, ef ég skildi frásögnina í Kastljósi rétt.

Síðan segist Sighvatur trúa á mátt fyrirgefningarinnar „í úrvinnslu allra mála“.

Þetta hljómar kannski snoturlega, en við þurfum samt að gæta okkar á þessu fyrirgefningartali.

Það er vissulega gott ef fórnarlamb getur fyrirgefið þeim sem brotið hefur á því – en það á alls ekki að gera kröfu um fyrirgefningu á hendur fórnarlambinu.

Fórnarlamb á að fyrirgefa á eigin forsendum og þegar það sjálft er tilbúið – ekki þegar einhver prestur hringir.

Og stundum er bara allt í lagi að fyrirgefa ekki neitt.

En Sighvatur Karlsson hefur ekki sagt sitt síðasta orð í Fréttablaðinu.

„[É]g biðst auðmjúkur afsökunar hafi ég sært einhvern.“
EF ég hef, altso … sært EINHVERN.
Mikið er þetta dæmalaust ómerkileg „afsökunarbeiðni“ … hafi hún verið sett fram sem ég rengi þó ekki en hafi einhver hugsanlega upplifað þessi orð þannig þá man ég bara svo lítið eftir þessu en til að gæta hlutleysis er ég bundinn þagnarskyldu og meintum mér gekk auðvitað gott eitt til …
Hvílíkur prestur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!