Þriðjudagur 16.04.2013 - 09:53 - FB ummæli ()

„Á meðan sveltur fólk hér á Íslandi“

Það hvarflar stundum að mér að kosningabaráttan þessar vikurnar gerist í einhverju fantasíulandi, sem á ósköp lítið skylt við raunveruleikann.

Og skuldamál tiltölulega lítils hóps hafa hertekið alla umræðubrunna í þessu landi.

Ég er ekki að gera lítið úr vanda þessa tiltekna hóps. Ég tilheyri honum jú sjálfur.

En fyrr má nú vera hvernig öll áhersla er lögð á „leiðréttingar“ fyrir þennan eina hóp.

Á Bylgjunni í morgun heyrði ég Helga Hjörvar frambjóðanda Samfylkingarinnar reyna að útskýra stefnu þess flokks í efnahagsmálum almennt.

Auðheyrt var hins vegar að spyrjendur höfðu fyrst og fremst áhuga á skuldaniðurfellingum. Hver voru tilboð Samfylkingarinnar í þeim efnum?

Helgi útskýrði að flokkurinn vildi hjálpa þeim sem ættu við raunverulega erfiðleika að etja, en ekki endilega lækka húsnæðisskuldir hjá öllum.

Peninga sem til féllu ætti að nota til að styrkja heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi og svo framvegis.

Og einkum og sér í lagi ættu Íslendingar að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru, það mundi til dæmis hafa í för með sér mikla lækkun vaxta sem kæmi öllum til góða.

Öðrum þáttastjórnandanum fannst þetta greinilega þunnur þrettándi. Hann benti á að það myndi taka tíma að taka upp evruna.

Og bætti við með nokkrum þjósti:

„Og á meðan sveltur fólk hér á Íslandi.“

Þetta voru hans óbreytt orð.

Og þá fannst mér altso að ég væri kominn á einhverjar fantasíuslóðir, þar sem raunveruleikinn skipti voða litlu máli.

Sko.

Í fyrsta lagi sveltur fólk ekki á Íslandi.

Ég veit að það eru til hörmuleg dæmi um fólk hér á Íslandi sem er svo fátækt að það þarf að velta fyrir sér hverri einustu krónu svo það eigi fyrir mat. Það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr þeim sorglega vanda.

En samt. Fólk sveltur ekki á Íslandi. Ekki í þeim skilningi sem lagður er í þau orð í útlöndum, þar sem sulturinn er víða raunverulegur.

Það á ekki að gjaldfella svo orð og hugtök að við hér á Íslandi förum að nota um okkur sjálf sömu orð og við myndum nota um alvöru hungursneyðir.

Allra síst eiga fjölmiðlamenn að ýta undir slíka orðabólgu.

En í öðru lagi – það fólk sem vissulega er fátækast á Íslandi og þarf til dæmis að leita aðstoðar til að eiga fyrir mat, það er nákvæmlega EKKI það fólk sem loftbelgjum skuldaleiðréttinganna er ætlað að gagnast.

Fátækasta fólkið á Íslandi mun ekki verða hótinu betur statt þegar búið verður að lækka skuldir millistéttarinnar og hátekjufólksins um 20 prósent.

Ef það verður þá gert … ef það verður þá hægt.

Samt tekur þáttastjórnandi Bylgjunnar svo til orða að pólitíkus eins og Helgi Hjörvar verði bara að framkalla tafarlausa skuldaleiðréttingu hér og nú, því „á meðan sveltur fólk á Íslandi“.

Æjá.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!