Sunnudagur 14.04.2013 - 20:00 - FB ummæli ()

„Frúin lætur ekki beygja sig“ – Einkennisorð Thatchers komin frá ræðuskrifaranum Millar

Margaret Thatcher verður jarðsungin með mikilli viðhöfn á miðvikudaginn kemur. Hún var sem kunnugt er mjög umdeild meðan hún var á dögum og jafnvel eftir dauðann vekur hún deilur. Ýmsir á Bretlandi og víðar hafa nefnilega fagnað dauða hennar á óvenju opinskáan hátt, sem öðrum þykir í meira lagi ósmekklegt.

Eitt af því sem helst einkenndi Thatcher var staðfestan. Hún vék eiginlega aldrei af þeirri leið sem hún vildi fara.

Thatcher bannaði sjálfri sér U-beygjur.

Thatcher bannaði sjálfri sér U-beygjur.

Þessa staðfestu telja stuðningsmenn Thatcher hafa verið hennar mesta kost, en andstæðingarnir eru á því að einmitt staðfesta hennar hafi verið versti ókostur hennar. Hún hafi verið einstrengingsleg og þröngsýn.

Sjálf lagði hún töluvert upp úr því að að rækta orðspor sitt fyrir staðfestu.

Frægustu ræðu sína hélt hún 10. október 1980. Þá hafði hún verið forsætisráðherra í rúmt ár og var byrjuð að losa um höft og reglur á efnahagslífinu. Það vakti miklar deilur, jafnvel innan Íhaldsflokksins, sem Thatcher stýrði, og fyrirrennari hennar Ted Heath og fleiri hvöttu hana til að snúa við blaðinu.

Það er að segja „taka u-beygju“, eins og það er gjarnan orðað á Bretlandi – eða „U-turn“ upp á ensku.

Thatcher svaraði þessum röddum fullum hálsi á flokksþingi Íhaldsflokksins og sagði:

„Við þá sem bíða með öndina í hálsinum eftir þeirri miklu fjölmiðlaklisju, u-beygjunni, hef ég aðeins eitt að segja: Beygið þið ef þið viljið, frúin lætur ekki beygja sig.“

Seinni parturinn er að hluta til orðaleikur á ensku:

„To those waiting with bated breath for that favourite media catchphrase, the ‘U-turn’, I have only one thing to say: „You turn [U-turn] if you want to. The lady’s not for turning.““

Eins og sjá má hér, vakti þetta heilmikinn fögnuð á flokksþinginu:

„The lady’s not for turning“ urðu síðan helstu einkennisorð Thatchers, og þess má geta að á næstu dögum eða vikum koma úr tvær þykkar ævisögur um feril hennar, og vill svo ólánlega til að þær heita báðar „Not for turning“.

Ronald Millar átti frasann sem Thatcher flutti svo með tilþrifum.

Ronald Millar átti frasann sem Thatcher flutti svo með tilþrifum.

Thatcher mun hafa haft nokkuð lunkinn húmor, fremur þurrlegan á breska vísu. Það var samt ekki hún sjálf sem skrifaði þessi orð sem urðu svo afdrifarík sjálfslýsing hennar. Það var ræðuskrifari hennar allt frá 1973, Ronald Millar.

Millar fæddist árið 1919, var í flotanum um tíma í síðari heimsstyrjöld en gerðist svo leikari og fór síðan að fást við leikritun. Hann skrifaði kvikmyndahandrit og leikgerðir, auk sinna eigin leikrita, og gekk ljómandi vel, þótt ekki þyki verk hans rista djúpt. Meðfram fór hann svo að vinna sem ræðuskrifari fyrir ýmsa stjórnmálamenn en er þekktastur fyrir starf sitt fyrir Thatcher.

Hann lést 1999 og hafði þá verið aðlaður.

Millar sjálfur var ánægðastur með orðaleikinn í sambandi „U-turn/You turn“ í ræðunni sem hann skrifaði fyrir Thatcher 1980 og taldi að sá brandari myndi slá í gegn. Hann átti eiginlega ekki von á að frasinn „The lady’s not for turning“ yrði mun langlífari og yrði eins og einkennisorð Thatchers.

Þessi frasi er tekinn úr leikriti sem frumsýnt var árið 1947 og gerist á 15. öld. Höfundurinn var Christopher Fry sem var í hópi vinsælla leikskálda á Bretlandi um og upp úr miðri 20. öld en er nú lítið leikinn. Leikritið heitir „The Lady’s Not For Burning“ og er í ljóðum, eins og mörg verka Frys, þótt ekki sé bragarhátturinn alltaf mjög strangur.

John Gieldgud.

John Gieldgud.

Það er skráð sem rómantískur gamanleikur en fjallar í aðra röndina um eftirköst styrjalda. Meðal persóna er „nornin“ Jennet og stendur um tíma til að hún verði brennd fyrir galdra, en ekki verður af því eins og heiti leiksins gefur til kynna.

Leikrit Frys varð geysivinsælt eftir að það var frumsýnt, leikarinn og leikstjórinn John Gielgud tók það mjög upp á sína arma og lék það oft og lengi. Í dag er reyndar afmælisdagur Gielguds, 14. apríl.

Þrátt fyrir vinsældir leikrits Frys á sínum tíma er hermt að Thatcher hafi ekki áttað sig á að frasinn sem Millar skrifaði í ræðu hennar væri kominn frá öðrum, svolítið breyttur. Hún fylgdist ekki grannt með menningunni, og tilvist leikritsins hafði alveg farið framhjá henni. En hún var ánægð með ræðuna og flutti hana með þvílíkum ágætum að þessi frasi hefur síðan ævinlega verið knýttur við hana.

Hérna má svo sjá örlítið brot úr sjónvarpsútgáfu af leikriti Frys. Þessi útgáfa var tekin upp 1987 og aðal karlrulluna leikur Kenneth Branagh.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!