Laugardagur 13.04.2013 - 12:00 - FB ummæli ()

Hvar voru þingmennirnir í gær?

Í gær skrifaði ég pistil um uppistandið í Sjálfstæðisflokknum þar sem ég notaðist við líkingamál úr hinni dramatísku Laxdælu.

En í dag, þegar þau Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsson féllust í faðma á fundi sínum í skólanum í Garðabæ, þá er líklega nær að hugsa til grínleikhússins Commedia dell’Arte.

Konungsbaninn Hanna Birna búin að fela rýtinga sína svo langt uppi í erminni að það er jafnvel hætta á að hún stingi sig á þeim sjálf.

Bjarni búinn að þurrka af sér tárin úr sjónvarpinu og mála á sig flennibros.

En bak við brosið hlýtur hann að hugsa til þingflokksins sem hann á fyrir höndum að stjórna næstu árin.

Hvar voru þingmennirnir í gær?

Þegar formaður þeirra háði sína örlagaríkustu orrustu?

Þá voru þeir allir sem einn í nafnlausum viðtölum í fjölmiðlum, mjálmandi hver upp í annan að nú kæmi ekki annað til mála af Bjarna en að hætta, fyrst hann hafði ljáð máls á því.

Allir stokknir beinustu leið frá borði.

Hann fékk ekki stuðningsyfirlýsingu frá einum einasta.

Hvar var Kristján Þór Júlíusson?

Eða Guðlaugur Þór? Ragnheiður Elín?

Jú, Illugi Gunnarsson kom reyndar fram með stuðningsyfirlýsingu – en jafnvel hann opnaði ekki munninn fyrr en upp úr miðjum degi.

Þau hin voru nafnlaus í gær. Í dag munu þau þyrpast í fjölmiðla og hylla hina „samhentu“ forystu …

En skyldu þau ekki verða ögn skömmustuleg á fyrsta þingflokksfundinum?

Og sigurbros Bjarna þá eilítið farið að stirðna?

En eitt er þó víst í þessu kómidíuleikhúsi Sjálfstæðisflokksins.

Að ansi hreint er Sigmundur Davíð orðinn pattaralegur á fjósbitanum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!