Föstudagur 12.04.2013 - 14:32 - FB ummæli ()

Örlög Bjarna Benediktssonar ráðin – í Laxdælu?

Þegar að er gáð, þá hefur flestallt gerst áður – á einn eða annan hátt.

Í Laxdælu segir frá því þegar Bolli Þorleiksson snýst gegn frænda sínum og fóstbróður Kjartani Ólafssyni.

Bolli þykist að vísu lengi tregur til víga gegn Kjartani, heldur lætur sem hann sé bara að fylgja bræðrum konu sinnar. Þeir töldu sig eiga sökótt við Kjartan, ekki síst fyrir öfundar sakir.

Þeir ráðast að Kjartani en Bolli stendur afsíðis í fyrstu.

Kjartan sér auðvitað í gegnum það. Hann veit að Bolla er ekki lengur treystandi.

Altént hvetur hann sinn gamla vin til að taka afstöðu.

„Bolli frændi, hví fórstu heiman ef þú vildir kyrr standa hjá?“

Loks opinberar Bolli hvað hann ætlar sér og snýst með sverð á lofti gegn Kjartani.

Kjartan vill ekki berjast við vin sinn, og sér nú sína sæng uppreidda. Hann kallar til Bolla:

„Víst ætlar þú nú, frændi, níðingsverk að gera, en miklu þykir mér betra að þiggja banaorð af þér, frændi, en að veita þér það.“

Þannig má segja að Kjartan veiti Bolla fyrirfram syndaaflausn fyrir morðið sem hann er í þann veginn að fremja. Í sögunni segir svo:

„Síðan kastaði Kjartan vopnum og vildi þá eigi verja sig, en þó var hann lítt sár en ákaflega vígmóður. Engin veitti Bolli svör máli Kjartans, en þó veitti hann honum banasár.“

Í Kastljósi í gær fjallaði Bjarni Benediktsson um aðförina gegn sér innan Sjálfstæðisflokksins.

Og að þar væru stuðningsmenn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á ferðinni.

„Útgefandi [Viðskipta]blaðsins er fyrrverandi kosningastjóri hennar og þar eru líka starfsmenn sem hafa starfað fyrir hana … [Þ]að er alveg greinilegt að það eru öfl innan Sjálfstæðisflokksins sem að eru þarna á ferðinni. Ég held að það blasi við öllum, og ég held að ég sé bara að segja það sem allir sjá.“

Með þessu var Bjarni að ögra Hönnu Birnu til að stíga fram – rétt eins og Kjartan hvatti Bolla til að taka afstöðu.

Vildi hún vera svo væn að lýsa yfir stuðningi við formann sinn – eða altént stíga fram í dagsljósið – með sverð sitt!

En á hinn bóginn – rétt eins og Kjartan veitti Bolla syndaaflausn á banastundinni, þá var Bjarni Benediktsson sá drengur að leysa Hönnu Birnu sjálfa í gærkvöldi fyrirfram undan sök í því vígi sem nú fer fram innan Sjálfstæðisflokksins.

„En ég ætla henni hins vegar ekki að vera stýra neinu af þessum toga, alls ekki, ég vil taka það skýrt fram.“

Sagði Bjarni í Kastljósi.

Í Laxdælu þáði Bolli ekki syndaaflausn Kjartans þegar til kom. Hann sá strax eftir verknaði sínum og lýsti víginu á hendur sér.

Slíkan manndóm hafði Bolli þrátt fyrir allt.

Fróðlegt verður að sjá hvort Hanna Birna muni lýsa hinu pólitíska vígi Bjarna Benediktssonar á hendur sér.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!