Ég hvet fólk enn eindregið til þess að skrifa nafnið sitt undir hvatninguna „Klárum dæmið“ sem hérna er að finna.
Textinn er svohljóðandi:
„Ein mikilvægasta spurningin sem Íslendingar standa frammi fyrir er hvort aðild að ESB yrði okkur til góðs eða ekki. Verði sú spurning ekki útkljáð af þjóðinni sjálfri má gera ráð fyrir þrotlausum deilum um málið næstu ár og áratugi.
Aðildarviðræðum við ESB mun væntanlega ljúka innan árs. Við undirrituð viljum ljúka samningum við ESB, svo við getum sjálf tekið upplýsta ákvörðun um hvort aðild hentar okkar eða ekki. Við viljum ekki treysta þingmönnum einum fyrir því.
Við erum alls ekki öll sannfærð um að aðild að ESB henti okkur. En við viljum að þjóðin fái að ráða ferðinni. Við viljum klára dæmið.“
Ég vil ítreka þetta síðasta: Þetta er alls ekki könnun fyrir þá sem umfram allt vilja ganga í Evrópusambandið. Hún er líka og ekki síður fyrir þá sem eru á móti, en vilja að þjóðin sjálf fái að taka afstöðu í málinu – og fái þá að taka afstöðu til raunverulegs samnings.
En ekki til þess óstaðfesta fullyrðingaglamurs sem bæði „já“ og „nei“ fylkingar myndu til dæmis þyrla upp ef greiða ætti atkvæði um hvort aðildarferlinu yrði haldið áfram – án þess að endanlegur samningur lægi fyrir.
Þjóðin á það skilið, eftir deilur um málið undanfarin ár, að greiða atkvæði um raunveruleikann, ekki áróðursstagl beggja fylkinga.