Föstudagur 03.05.2013 - 10:13 - FB ummæli ()

Júlíus Agnarsson – minningarorð

Júlíus Agnarsson

Þegar ég var rétt skriðinn yfir tvítugt fékk ég það verkefni að skrifa sögu hljómsveitarinnar Stuðmanna. Það fylgdi með í kaupunum að fara á hvert Stuðmannaballið á fætur öðru, hér og þar um landið, eitt sprellfjörugt sumar fram á haust, og fyrir barnungan blaðamann eins og mig var þetta vitaskuld hið mesta ævintýri. Stuðmenn voru þá strákar um þrítugt, firna sprækir og hressir, einhverjir mestu töffarar landsins: Egill, Jakob Frímann og Valgeir, og líka þeir Tómas, Þórður og Ásgeir, þótt hæglátari væru.

En ég get vel viðurkennt það núna, þegar svona langt er liðið, að mesti töffarinn af þeim öllum fannst mér samt vera hljóðmaðurinn, Júlíus Agnarsson. Hann þurfti vel að merkja ekkert að hafa fyrir því, hann var bara í sjálfum sér og hver hreyfing, hvert orð ósaði af fyrirhafnarlausum persónutöfrum. Meðan Stuðmenn sjálfir fóru hamförum uppi á sviði stóð Júlli bak við tækin sín úti í sal, alveg áhyggjulaus að sjá þótt hann þyrfti að hafa þúsund augu á hverjum fingri, með viskíglas og sígarettu við hendina, og glotti bara góðlátlega þegar þeir ætluðu alveg að ganga fram af sér uppá scenunni.

Töff, maður, töff!

Nokkrum árum seinna kynntist ég Júlla aftur og betur þegar ég flutti í Skólastrætið sem var eiginlega hans ættaróðal. Í húsinu númer eitt var hann alinn upp og hafði búið alla sína ævi, utan nokkur ár sem hann var erlendis, og þótt húsin við götuna séu ekki nema fimm og gatan ekki nema svona fimmtíu metrar á lengd, þá tók hann hlutverk sitt sem óðalsherra mjög hátíðlega. Einatt mátti sjá hann á vappi um götuna að líta eftir því hvort allt væri ekki nokkurn veginn eins og það ætti að vera, og hvort allir hefðu það ekki sæmilegt í ríki hans. Hann var manna skemmtilegastur, sposkur og fyndinn, átti til góðlega kaldhæðni en var fyrst og fremst fullur af velvild og áhuga á mannfólkinu og öllu þess kynduga vafstri.

Sögur kunni hann óteljandi, bráðskemmtilegar held ég bara allar með tölu, og jós af þeim gnægtabrunni þegar tilefni voru til. En hann var líka nærfærinn þegar við átti, og honum hefur til að mynda einum allra manna í veröldinni tekist að fá dóttur mína til að syngja í votta viðurvist  – þegar hann réði hana barnunga til að tala (og syngja) inn á eina þeirra Disney-mynda sem hann talsetti af svo mikilli list í kjallaranum á Skólastræti eitt.

Æjá, þá voru góðir dagar þegar þeir bjuggu báðir í Skólastrætinu, Júlli og Gylfi Gíslason og maður gat lent í dúndrandi fjöri þegar maður hitti þá báða í götunni og þeir sáldruðu yfir mann sögum og skarplegum athugasemdum og glensi og pólitík og ég veit ekki hverju. Þá fór maður kátur inn til sín þegar maður kom af fundi þessara töffara beggja.

Það var mikið áfall fyrir Skólastrætið þegar kviknaði í húsinu hans Júlla fyrir tíu árum og úr varð að fjölskyldan seldi húsið og hann flutti burt með allt sitt hafurtask og stúdíóið í kjallaranum. Gatan hefur ekki verið svipur hjá sjón síðan, tala nú ekki um eftir að Gylfi dó árið 2006. Það hefur að vísu alltaf verið gaman að rekast á Júlla hingað og þangað um miðbæinn þessi síðustu tíu ár – hann var svo sannarlega einn þeirra sem settu svip á bæinn, eins og það var orðað í gamla daga – alltaf kátur og oftast glaður líka, alltaf fullur af áhuga og góðsemi og einlægt að spjalla við hvurn sem var, segjandi sögur frá týndri tíð sem því miður verða ekki úr þessu skráðar á blað.

Héðan úr Skólastrætinu fylgja sonum Júlla þremur og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur síðasta spölinn sem þeir fylgja honum. Hann hefði mátt lifa svo miklu lengur.

Þótt það séu tíu ár síðan hann flutti þá stend ég mig að því ennþá þegar ég fer út úr húsi að búast við því að Júlli standi niðri í götunni og taki mig tali, og á því verður sjálfsagt engin breyting þótt nú sé hann dáinn. Þannig minnist ég Júlla, hann var og verður spígsporandi niðrí Skólastræti, vingjarnlegur, hlýlegur, ræðinn og skemmtilegur. Og töff.

Alltaf töff.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!