Laugardagur 08.06.2013 - 11:40 - FB ummæli ()

Getum við sparað okkur 110 milljarða? Æ, rifjum frekar upp góða daga í Icesave-slagnum

Allt þjóðfélagið var nálega á öðrum endanum út af Icesave-málinu á sínum tíma.

Í næstum þrjú ár.

Bræður börðust, systur töluðust ekki við, menn töluðu sig hása, örguðu og þvörguðu, pólitísk örlög réðust og framtíð þjóðarinnar valt á þessu eina máli.

Ekki varð að minnsta kosti betur séð.

Og það er talað um að þeir sem harðast börðust gegn Icesave-málinu hafi „bjargað þjóðinni“.

Gott og vel. Hvarflar ekki að mér að draga það í efa.

(Þótt sumir geri það vissulega, sjá hér.)

En nú skilst mér líka  að útreikningar sýni að með því að hafna Icesave-samningunum hafi Íslendingar sparað sér 30 milljarða króna.

Það er lagleg summa og ýmislegt á sig leggjandi til að losna við hana.

Það getur að vísu vel verið að sparnaðurinn sé í raun minni, þar sem samningar snemma kynnu að hafa fært okkur meiri ávinning – en um það ætla ég ekki að fullyrða neitt.

Segjum bara að þetta séu 30 milljarðar.

Það er að vísu miklu lægri upphæð en við töpuðum með gjaldþroti Seðlabankans, og enginn hefur farið á mótmælafund út af né æst sig á Alþingi né byrjað undirskriftalista – en hva, 30 milljarðar eru samt alltaf 30 milljarðar.

En í gær birtist í Fréttablaðinu frétt um að útreikningar virts tryggingastærðfræðings hefðu sýnt að kostnaðurinn við að halda úti íslensku krónunni sé á bilinu 80 til 110 milljarðar króna.

Á ári.

Á hverju einasta ári!

Og þó horfði tryggingastræðfræðingurinn Benedikt Jóhannesson í reikningum sínum ekki til kostnaðar okkar af að halda krónunni í núverandi stöðu, heldur miðaði við ímyndað „eðlilegt ástand“.

Kostnaðurinn af krónunni er því væntanlega enn hærri en þessir 80 til 110 milljarðar á ári.

Þessi frétt var á blaðsíðu 4 í Fréttablaðinu. Hún vakti ekki mikla athygli.

Mér vitanlega hefur enginn ennþá skipulagt kröfugöngu þar sem þess er krafist að við spörum okkur þessar ógnar fjárhæðir.

Mér vitanlega hafa engir fréttatímar verið lagðir undir þessi tíðindi, eins mikið og var þó fjallað um Icesave á sínum tíma.

Mér vitanlega ætlar ríkisstjórnin ekki að gera neitt í málinu.

Mér vitanlega er Sigmundur Davíð ekki farinn að pússa skóna sem hann ætlar að nota til að „standa í lappirnar“ í þessu gífurlega hagsmunamáli þjóðarinnar – að losna við krónuna.

Mér vitanlega hefur enginn ennþá boðað bænaskjal til Ólafs Ragnars Grímssonar.

Mér vitanlega hefur Ólafur Ragnar Grímsson hvergi farið með himinskautum til að „halda uppi málstað Íslands“ í baráttunni við að losna við hið ónýta hræ krónunnar.

Mér vitanlega er flestum meirog minna skítsama um þessa 80 til 110 milljarða.

Sama fólkið og barðist af svo mikilli hugprýði og til síðasta blóðdropa í Icesave-málinu lætur þetta sig einu gilda.

Fréttamenn og fræðimenn, þeir hafa ekki áhuga.

Getur einhver útskýrt fyrir mér hvers vegna?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!