Þriðjudagur 25.06.2013 - 22:31 - FB ummæli ()

Bíð spenntur eftir næsta viðtali við Ólaf Ragnar

Við setningu Alþingis um daginn vakti Ólafur Ragnar Grímsson forseti mikla athygli þegar hann fullyrti að innan Evrópusambandsins væri enginn áhugi á að fá Ísland í samtökin.

Að því hefði hann komist í samræðum sínum við einhverja ónefnda menn.

Þetta þóttu að vonum miklar fréttir, og þeir sem höfðu viljað láta reyna á aðildarumsókn og þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB roðnuðu upp fyrir haus.

Höfðu þeir þá verið að tala fyrir eintómri blekkingu – vaðið í villu og svíma – gert sig að fífli með því að trúa tómu rugli – sem hinn eldskarpi hugur Ólafs Ragnars hafði nú rist sundur eins og hnífsblað sláturskepp?

Var um þetta mikið fjallað í fjölmiðlum, og skyldi engan undra.

Nú hefur það hins vegar gerst að forráðamenn Evrópusambandsins sjálfs, Svíþjóðar, Finnlands, Danmerkur og að síðustu Þýskalands hafa gefið mjög afdráttarlausar yfirlýsingar að vissulega hefðu þeir mjög gjarnan viljað sjá vinaþjóð sína Íslendinga ganga til liðs við Evrópusambandið.

Þessu eru þeir væntanlega allir að ljúga, því við hljótum að trúa forseta okkar.

En svo frakkir eru Þjóðverjar að þeir virðast meira að segja ljúga þessu blákalt upp í opið geðið á forsetanum sjálfum sem er nú í mikilli peppreisu til Þýskalands, eins og kunnugt er.

Fréttamaður RÚV er með forsetanum í för, og kannski fleiri fjölmiðlar.

Vænt þætti mér um ef fréttamenn vorir í Þýskalandi mundu nú spyrja forsetann hvernig honum falli að heyra þessar bláköldu lygar Þjóðverjanna.

Hvort hann hafi þá ekki örugglega sett stranglega ofan í við forseta Þýskalands eins og Jeremy Paxman á sínum tíma, þegar Þýskalandsforseti upphóf ósanna þulu sína um að hann og aðrir Þjóðverjar vildu fá Ísland inn í ESB?

Því varla getur verið að fullyrðingar Ólafs Ragnars um þetta hafi verið tóm tjara!

Ég treysti fréttamönnum vorum til að útkljá þetta mál – því auðvitað er ekki hlutverk þeirra að kóa með hvorki einum né neinum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!